Hljóðaklettar

Frá Gilsbakka í Kelduhverfi um Hljóðakletta í Hólmatungur.

Þetta er ekki reiðleið, heldur eingöngu fyrir göngufólk. Hljóðaklettar eru sérkennileg þyrping stuðlabergskletta í mynni Vesturdals við Jökulsá á Fjöllum. Þeir eru gígtappar gígaraðar, sem síðara hamfarahlaup Jökulsár skolaði burt fyrir 3000 árum. Stuðlarnir hafa alls konar legu og ýmsar kynjamyndir. Nafnið er dregið af bergmáli af suði árniðarins. Skammt sunnan þeirra eru Karl og Kerling, hraunstandar neðst í gljúfrinu. Karlinn er 60 metra hár og Kerlingin lægri og grennri. Tröllahellir handan árinnar var bústaður þeirra áður en þau urðu að steini.

Förum frá Gilsbakka um gönguslóðina til suðurs og nálgumst Jökulsárgljúfur og förum áfram meðfram gljúfrinu. Förum um Rauðhóla og Hljóðakletta að Vesturdal og yfir Vesturdalsá. Áfram til suðurs hjá klettunum Karli og Kerlingu alla leið í Hólmatungur. Komum inn á leiðina um Hólmatungur hjá Vígabergsfossi.

16,8 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir hesta

Nálægir ferlar: Klappir
Nálægar leiðir: Dettifossvegur, Hólmatungur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort