Hreintrú og breiðtrú.

Greinar

Sumir kristnir menn aðhyllast hreina kaþólsku eins og hún var nákvæmlega skilgreind á kirkjuþinginu í Nikeu. Aðrir aðhyllast lútersku og enn aðrir stunda samband við framliðna. Ótal slíkar tegundir hreinnar trúar eru til.

Svo eru þeir, sem blanda þessu saman að meira eða minna leyti, til dæmis lútersku og andatrú eða lútersku og kaþólsku. Þeir telja sig vera kristna, þótt þeir hafi lítinn áhuga á hárfínum skilum réttrar trúar og villutrúar.

Í stjórnmálunum skiptast menn líka í hreintrúarmenn og breiðtrúarmenn. Til eru margar tegundir hreinnar trúar á Karl Marx. Og margir eru þeir, sem telja sig marxista, þótt trú þeirra sé blönduð hinu og þessu af öðrum toga.

Hér á landi hafa deilur um pólitíska hreintrú og breiðtrú einkum staðið í Sjálfstæðisflokknum undanfarin misseri. Sumir kennimenn flokksins hafa reynt að fægja ryðið af eins konar hreinum kenningum, er flokkurinn eigi að taka upp.

Segja má með nokkurri ónákvæmni, að flokkurinn spanni og hafi alltaf spannað litróf stjórnmála frá hægri og inn á miðju. Jón Þorláksson var til dæmis meiri hreintrúarmaður en Ólafur Thors, sem fyrstur hófsamstarfvið kommúnista.

Sjálfstæðisflokkurinn var myndaður við samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Æ síðan hefur hann verið klofinn og raunar margklofinn undir niðri. Hann hefur fremur reynzt vera kosningabandalag en stjórnmálaflokkur.

Mismunur Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins er löngu týndur. Eftir stendur þó eðli kosningabandalagsins, þar sem menn deila um, hver skuli vera hin hreina trú og hvort flokkurinn skuli yfirleitt hafa hreina trú.

Með Ólafi Thors varð breiðtrúarstefnan ofan á í Sjálfstæðisflokknum. Hann lét sig litlu varða kennisetningar, hagaði seglum eftir pólitískum vindi og gerði flokkinn um leið að ráðamesta afli þjóðfélagsins.

Auðvitað má deila um, hvort stjórnmálaflokkur eigi að vera stór og sveigjanlegur eða lítill og grjótharður. Íhaldsflokkar og frjálslyndu flokkar Norðurlanda hafa verið litlir og harðir, en Sjálfstæðisflokkurinn stór og sveigjanlegur.

Þeir, sem andvígir eru sveigjunni, geta haldið því fram, að stækkun fylgis flokksins upp í annan hvern kjósanda komi að litlu gagni, ef sveigjan verður svo mikil, að hluti flokksins sé í stjórn og annar hluti í andstöðu.

Hinir, sem sækjast fremur eftir meirihlutafylgi en hreinni trú, geta haldið því fram, að fleira nái fram að ganga af málum flokksins, ef hann hafi sveigju til samkomulags við aðra flokka um myndun meirihluta.

Auðvitað getur flokkur orðið svo breiður, að hann klofni. En þar með er ekki öll nótt úti, því að brotin geta samanlagt náð meira fylgi en einn flokkur hefði getað og samt sem áður náð samkomulagi um samstarf.

Við getum til dæmis ímyndað okkur, að Sjálf stæðisflokkurinn byði fram tvo lista í Reykjavík í næstu borgarstjórnarkosningum, annan undir forustu Alberts Guðmundssonar og hinn undir forustu Davíðs Oddssonar.

Líklega væri slíkt framboð líklegasta von sjálfstæðismanna til að ná aftur meirihluta í Reykjavík. En um leið yrði mjög ólíklegt, að brotin tvö mundu koma sér saman um hreina trú. Breiðtrúin hlyti að verða leiðarljósið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið