Þeir, sem starfs síns vegna ættu að hafa áhuga á vísindum skoðanakannana, eru komnir að krossgötum. Tími er til kominn, að þeir hætti að hafa aðferð Dagblaðsins á hornum sér og fari að hugleiða, hvernig standi á árangri hennar.
Skoðanakannanir Dagblaðsins fyrir kosningar hafa nú sannað hagnýtt gildi sitt fjórum sinnum í röð á rúmlega tveimur árum. Þær hafa alltaf reynzt nokkurn veginn réttar. Og sú síðasta var svo nákvæm, að jaðra hlýtur við heimsmet.
Það væri verðugt viðfangsefni að kanna, hvers vegna símakannanir, sem víða erlendis gefast illa, gefast svona vel hér á landi. Þar með gæti fundizt ódýr leið til víðtækari félagsfræðiathugana en hingað til hafa verið stundaðar hér.
Þegar hringt er eftir ákveðnu kerfi úr símaskránni endilangri, unz náðst hefur tiltekinn fjöldi, sem svarar í símann og er á kosningaaldri, hefur náðst 100% úrtak. Fróðlegt væri að bera þetta saman við 65-80% árangur úr þjóðskrá.
Búsetuskekkju símakannana Dagblaðsins er bægt frá með því að hringja misþétt í þrjá hluta skrárinnar, Reykjavíkursvæðið, sjálfvirka svæðið og strjálbýlið. Með þessum einfalda hætti næst jöfn dreifing um landið i heild.
Skekkju milli kynja er bægt frá með því að spyrja jafnmarga af hvoru. Einnig með því að hringja um kvöld og helgar. Á þennan hátt er komið í veg fyrir, að mismikil heimavera kynja hafi áhrif á niðurstöðutölurnar.
Skekkju milli aldurshópa væri hægt að bægja frá með því að gefa þeim svipaðan kvóta og gert er milli kynja. Þetta hafa Dagblaðsmenn oft hugleitt, en aldrei lagt í að framkvæma. Hér væri um hugsanlega endurbót að ræða.
Trúin á mikilvægi nálægðar við hina hreinu tilviljun hefur hingað til komið í veg fyrir, að Dagblaðið tæki upp tiltölulega margliða kvótaskiptingu aldurshópa til viðbótar einfaldri kvótaskiptingu kynja og búsetu.
Stærsta rannsóknarefnið felst þó í tveimur spurningum: Hverjir eru ekki nálægt skráðum heimilissíma eða ekki fyrstir til að svara í slíka síma? Að hvaða leyti hafa þeir aðrar skoðanir en hinir, sem könnunin nær í?
Líklegt er, að símakönnun nái tiltölulega illa til sjómanna, farmanna og farandverkafólks. Einnig kvöld-, helgar- og vaktavinnufólks. Ennfremur fólks á stofnunum á borð við elliheimili og sjúkrahús. Og loks fólks í útlöndum, svo sem námsmanna, kaupsýslumanna og sólarstrandafólks.
Að hvaða leyti hafa þessir hópar samanlagðir aðrar skoðanir en hinir hóparnir samanlagðir? Reynsla skoð- anakannana Dagblaðsins bendir til lítils eða einskis munar. Aftur á móti eru hinar vísindalegu orsakir þess ekki kunnar.
Á þessu sviði er verk að vinna fyrir íslenzka félagsfræðinga. En fyrst þurfa þeir að sigrast á þeim fordómi, að íslenzk símaskrá sé sami hlutur og erlend símaskrá eða hljóti að vera það.
Ennfremur þurfa þeir að hætta að útskrifa svokallaða sérfræðinga, sem telja vísindalegt að skipta litlu úrtaki í svo ótal margar skúffur, að mjög fáir menn lendi í sumum skúffunum. Slíkt böl hefur tröllriðið skoðanakönnunum Vísis.
Auðvitað er hart aðgöngu, að skoðanakönnun lánist því aðeins, að sérfræðingum sé þar hvergi hleypt nærri. En vilji reynslan ekki laga sig að vísindunum, verða vísindin að laga sig að reynslunni. Hún ein veit, hvað eru vísindi og hvað er þoka.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið