Íbúðalánakerfi okkar er á undanhaldi. Byggingakostnaður vex örar en lánveitingar sjóða þeirra og stofnana, sem lána til ibúðabygginga. Afleiðingin er sú, að sífellt verður erfiðara fyrir ungt fólk að koma þaki yfir höfuðið á sér og húsaleiguokur magnast.
Meiri bjartsýni ríkti á þessu sviði fyrir um það bil áratug. Á þeim árum var unnið vel að því að efla lángetu Húsnæðismálastofnunarinnar, og um leið fór aðild lífeyrissjóðanna að lánakerfinu ört vaxandi. Menn fóru í fullri alvöru að tala um að stefna að því marki að efla lánakerfið svo á næstu árum, t.d. einum áratug, að það gæti lánað 80% af verði meðalíbúðar.
Þróunin hefur reynzt hægari en hinir bjartsýnu spáðu í þá daga. Og núna allra síðustu árin hefur byrjað að síga á ógæfnhliðina. Húsnæðismálastofnuninni er haldið í peningasvelti, og lífeyrissjóðirnir hafa ekki getað hlaupið fyllilega í skarð.
Í vetur voru lán Húsnæðismálastofnunarinnar hækkuð úr 600 þúsund krónum í 800 þúsund krónur á íbúð. Höfðu lánin þá staðið í stað í nokkur ár, meðan byggingakostnaður fór hraðvaxandi. Hækkunin nægði ekki til að brúa bilið, sem myndazt hafði.
Hins vegar fékk stofnunin enga eðlilega fjármögnun til að standa undir hækkuninni. Hún varð að taka lán með óhagstæðum kjörum, þannig að hún verður nú að borga með þeim lánum, sem hún veitir. Þrátt fyrir þessa stundarfróun á stofnunin í vaxandi erfiðleikum með að afgreiða lán sín með þeim hraða, sem orðinn var að venju.
Þótt lífeyrissjóðirnir eflist stórlega með hverju árinu,eiga þeir líka við vandamál að stríða, sem draga úr getu þeirra til íbúðalána. Útreikningar hafa leitt í ljós, að verðbólgan er svo mikil, að þeir munu eftir nokkurt árabil eiga erfitt með að borga félagsmönnum sínum sómasamlegan ellilífeyri á verðlagi hvers tíma.
Lífeyrissjóðirnir freistast því til að ávaxta fjármagn sitt betur en með íbúðalánum. Þeir vilja gjarnan kaupa vísitölutryggð skuldabréf eða tryggja verðgildi sjóða sinna á annan hátt gegn verðbólgunni. Íbúðalánin hljóta að teljast óhagstæð í samanburði við aðra ávöxtun fjármagns, sem sjóðirnir eiga völ á.
Ef til vill gætu lífeyrissjóðirnir tekið virkari þátt í ihúðalánakerfinu, ef þeir mættu vísitölubinda þann hluta lána sinna, sem væri yfir ákveðinni grundvallarupphæð. Lánþegar gætu þá ráðið því, hvort þeir tækju aðeins grunnlánið með góðu kjörunum eða einnig viðbótarlánið með vísitölukjörunum. Ef hagsmunir sjóðanna og lífeyrisþega þeirra væru tryggðir með slíkum hætti, væri hægt að ætlast til þess, að sjóðirnir sérhæfðu sig í íbúðalánumog kæmu með stórauknum krafti til skjalanna á því sviði.
Draumurinn um 80% lánin er fjarlægari en áður. En stjórnvöld mega ekki gefast upp, þótt á móti blási og hugmyndaauðgi sé af skornum skammti. Okkur hefur oft tekizt að láta ótrúlega drauma rætast. Og við getum alveg eins látið þennan draum rætast. Við þurfum þá að gera hvort tveggja í senn, að taka málið föstum tökum og vera um leið stór í sniðum.
Jónas Kristjánsson
Vísir