MIKIL HLÝTUR REIÐI Jóns Ólafssonar að vera, úr því að hann fór fyrst aftan að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni með málaferlum um meðyrði í London og eltir hann síðan upp til Íslands með ellefu milljón króna kröfu, allt vegna ummæla á ensku á ráðstefnu í Borgarfirði og á heimasíðu Hannesar.
AUÐVITAÐ MÁ SEGJA, að Hannes hefði átt að grípa til varna fyrir dómstóli í London. Það hefði örugglega leitt til lægri skaðabóta. En málarekstur í London hefði kostað mikla fyrirhöfn og kostnað, sem einstaklingar mikla auðvitað fyrir sér, þótt Hannes sé raunar mikið á ferð og flugi í útlöndum.
RAUNAR ER ÁHYGGJUEFNI, að brezkur dómur skuli dæma mann til að greiða svona háar bætur, án þess að hafa hlustað á rök hans eða lögmanns hans. Dómstólar verða að taka tillit til, hvort sakborningar búa í útlöndum eða ekki og hvaða aðstöðu þeir hafa til að verja hendur sínar gegn fullum höndum fjár.
LÍKLEGT MÁ TELJA, að vinir Hannesar skjóti saman peningum handa honum, enda hefur hann verið fremstur á götuvirkjum hinnar pólitísku umræðu hér á landi, venjulega í þágu vina sinna fremur en í þágu sjónarmiða sinna. Það stendur upp á vinina, að sjá til þess, að Hannes beri ekki fullan skaða.
DÓMAR Í BRETLANDI vegna meiðyrða hafa löngum verið sérstæðir í Evrópu, aðallega vegna meints gróða fjölmiðla af röngum fréttum. Hannes Hólmsteinn er sjálfur enginn fjölmiðill, en í seinni tíð hafa menn ekki varað sig á, að smám saman er réttilega farið að líta á heimasíður manna sem fjölmiðla.
VIÐ ERUM Í SAMSTARFI við Evrópu um fullnustu dóma, aðilar að Lugano-sáttmálanum, þar sem meðal annars segir, að dómar í einkamálum séu viðurkenndir milli landa. Við getum talið eðlilegt, að meiðyrðadómar í Evrópu séu viðurkenndir á Íslandi, en þurfum að líta brezka dóma sérstökum augum.
BREZKIR DÓMAR UM SEKT eða sakleysi geta gilt hér á landi, en setja þarf skorður við fáránlegum upphæðum, sem úrskurðaðir eru í Bretlandi. Með tilvísun til sérstöðu brezkra dóma þurfa aðilar Lugano-sáttmálans að setjast niður til að ræða, hvernig skuli fara með brezka sérstöðu í meiðyrðadómum.
DV