Kosningalexía

Greinar

Staðbundnar aðstæður hafa víðast hvar áhrif á úrslit byggðakosninga og hindra raunhæfan samanburð milli byggða. Einkum er marklítið að túlka niðurstöðurnar á landsvísu, enda stóðu hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar út af fyrir sig og sameiginlega að framboðum á ýmsa vegu.

Eina nothæfa alhæfingin er um stöðu vinstri grænna. Þeim hefur greinilega ekki gefizt vel að bjóða sérstaklega fram í byggðakosningunum, þótt þeir njóti góðs fylgis í skoðanakönnunum á landsvísu. Flokkurinn virðist fremur höfða til fólks sem landsmálaflokkur en byggðamálaflokkur.

Slíkt þarf ekki að vera fjötur um fót. Það er bara hefð, en ekki rökrétt nauðsyn, að stjórnmálaöfl komi fram í sömu mynd í landsmálum og byggðamálum. Misjafnir málaflokkar landsstjórnar og byggðastjórna geta kallað á misjöfn mynztur í staðbundnu samstarfi í sveitarstjórnamálum.

Flokkar þurfa að varðveita sérstöðu sína í alþingiskosningum, af því að þar leggst fulltrúatala allra kjördæma saman í einn pakka á alþingi. Þetta er ekki eins brýnt í byggðakosningum, af því að þar er engin slík samlagning í fulltrúatölunni. Hver sveitarstjórn er sjálfstæð heild.

Áður voru kjósendur fastari í dilkum. Þá gat verið gott að nýta flokkskerfi úr landsmálum til átaka í byggðakosningum. Nú skiptir slíkt minna máli, þegar kjósendur ramba meira milli flokka. Landsmálakerfin duga því skemur en áður til að hafa aga á kjósendum í byggðakosningum.

Ljóst er, að samstarfið um meirihluta í Reykjavík hefur gengið vel þrisvar í röð og raunar betur en nokkru sinni fyrr. Sameinað framboð Framsóknar, Samfylkingar og vinstri grænna hefur skilað þeim árangri, að borgin virðist vera varanlega gengin úr greipum Sjálfstæðisflokksins.

Á sviði sveitastjórna eru ýmis mál, sem fólk lætur sig mestu varða, svo sem leikskólar og skólar, tómstundir almennings og aðstaða aldraðra, svo og byggðaþróun. Reykjavíkurborg hefur lengi gefið tóninn á slíkum sviðum, svo að pólitísk áhrif meirihlutans í borginni ná vítt um land.

Skólamáltíðir, einsetning skóla, lækkun skólaaldurs og dagvistun allra barna eru dæmi um mál, sem standa nær mörgu fólki en sumt af verkefnum ríkisstjórnar og alþingis. Verk Reykjavíkurlistans á slíkum sviðum munu verða áhugafólki umhugsunarefni í öðrum byggðum landsins.

Reykjavíkurlistinn hefur enn fengið fjögur ár til að gefa tóninn í nágrennispólitík. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar í sárum eftir enn eina mislukkaða hallarbyltingu. Án árangurs hefur hann prófað hvern leiðtogann á fætur öðrum. En snillingar dafna ekki í skjóli formannsins.

Borgarmálin standa mörgum nær en landsmálin. Þau eru ekki eins ópersónuleg. Fólk finnur ekki til sama yfirþyrmandi vanmáttar gagnvart nágrennismálum sínum og landsmálunum. Enn meiri er þessi munur í minni sveitarfélögum, þar sem hver kjósandi er stærri hluti heildarinnar.

Aukin nágrennisstjórn á skólum og tómstundasvæðum í Reykjavík væri til þess fallin að færa pólitíkina þar fjær landsmálunum og nær byggðamálum eins og þau gerast annars staðar á landinu. Það væri til þess fallið að auka tilfinningu fólks fyrir því, að það geti haft pólitísk áhrif.

Að mestu snýst þetta samt um borgarstjóraefnin. Reynslan hefur enn einu sinni sagt okkur, að þau hafa risið og hljóta framvegis að rísa úr grasrótinni, en ekki stíga niður af ráðherrastóli.

Jónas Kristjánsson

FB