Launsátrum fækkar.

Greinar

Orðbragð ýmissa þekktra alþýðuflokksmanna er af fjölskrúðugasta tagi. Vilmundur Gylfason talar um “skítapakk”, Bjarni Guðnason um “rumpulýð” og Björn Friðfinnsson um “ruglaðan mann”. Ný lota af slíku er nýlega afstaðin.

Þessi innanhússumgengni í Alþýðuflokknum er auðvitað til skammar öllum þeim, sem þátt taka. Auk þess er hún slæmt fordæmi, því að sumir telja sig mega herma eftir höfðingjunum, þegar hitnar í kolum skapsmunanna.

Hinir orðskrúðugu hafa sér aðeins eitt til afsökunar. Þeir ráðast ekki á menn úr launsátri. Þeir skýla sér til dæmis ekki á bak við dulnefni. Þeir koma fram undir fullu nafni, þegar þeir ráðast á menn á fundum og í fjölmiðlum.

Í stjórnmálum og öðrum opinberum málum verður að gagnrýna. Þessi gagnrýni verður stundum að vera persónuleg. Og þá er stundum skammt yfir í persónulegar árásir, því að mörkin eru óljós og mönnum oft heitt í hamsi.

Hinn persónulegi þáttur hefur minnkað með árunum, einkum árásir úr launsátri. Þetta má til dæmis sjá í dagblöðunum, sem bæði eru sjálf orðprúðari en áður og hafa færri felustaði fyrir þá, sem ekki þola dagsbirtu.

Sem dæmi má nefna höfunda leiðara, sem nú orðið eru nafngreindir í flestum dagblöðunum. Eins er um höfunda ýmissa hliðarleiðara um stjórnmál, sem sum blöðin birta. Þar tíðkast nöfn og upphafsstafir í vaxandi mæli.

Og séu slíkir dálkar nafnlausir eins og Staksteinar Morgunblaðsins, er orðið sjaldgæft, að þeir villist yfir mörk persónulegrar gagnrýni til árása ár launsátri. Og mest halda þeir sig við almennt stjórnmálapex.

Þekktasta undantekningin er Vísir, sem hefur fengið sér varðhund, brottrekinn úr siðareglunefnd blaðamanna og verandi frá þjóðhátíð á framfæri hins opinbera, einkum við meinta samningu bóka, þar á meðal einnar á sviði listfræði.

Svarthöfði er hælbítur, sem beitir öllu litskrúði tungunnar, dylgjum, hálfkveðnum vísum, tvíræðu orðalagi og beinu níði gegn nafngreindum persónum, sem stjórnarformanni og stjórn Vísis er illa við, allt frá listfræðingum yfir í fréttastjóra ríkisfjölmiðlanna.

Svo gerist hið broslega, þegar dulu nafnleysisins er svipt af Svarthöfða, að hann ýlfrar af sárindum yfir því að fá ekki að vera í friði í launsátri sínu. En hann er sem betur fer steingervingur fyrri tíma.

Ennfremur eru dulnefnin ennþá töluvert vandamál í lesendabréfum dagblaðanna, svo sem fórnardýr þeirra hafa stundum bent á með rétti. Blöðin þurfa greinilega að hreinsa betur til í þessum annars ágætu dálkum.

Í sumum tilvikum geta dulnefni verið nauðsynleg, af því að höfundar eiga á einhvern hátt undir hina gagnrýndu að sækja. En orðaval slíkra bréfa þarf að sæta sérstöku eftirliti.

Sú breyting hefur orðið til bóta á síðustu árum, að höfundar bréfa nota nafnnúmer sitt. Þar með forðast þeir hina almennu athygli, en geta ekki hindrað, að hinir gagnrýndu komist að fullu nafni, ef þeir nenna.

Loks vex sem betur fer fjöldi þeirra bréfa, sem birtast undir fullu nafni. Það er þáttur hinnar heilbrigðu þróunar, að opinber umræða fari fram fyrir opnum tjöldum, án þátttöku þeirra, sem aðeins geta skotið úr launsátri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið