Mistök í manntali.

Greinar

Manntalið um helgina tókst stórslysalaust. Flestir voru heima og svöruðu undanbragðalítið, þegar teljarar komu á vettvang. Reiknað er með, að um næstu helgi verði búið að ná sambandi við mikinn hluta hinna, sem eftir eru.

Þetta er vel sloppið, þar sem stjórnendur manntalsins höfðu af óhóflegum góðvilja tekið meiri áhættu en eðlilegt er. Þeir höfðu hleypt óviðkomandi aðilum inn í manntalið með spurningar, sem tæplega eru á verksviði manntals.

Um þetta er hægt að fjalla nú, þar sem manntalinu er að verulegu leyti lokið. Gagnrýni ætti ekki lengur að spilla söfnun nauðsynlegra upplýsinga. En hún ætti að koma til íhugunar, næst þegar manntalsmenn vilja taka áhættu.

Ekki er hægt að segja, að aukaspurningar manntalsins hafi verið tiltölulega nærgöngular. Íslendingar eru vanir að svara í skoðanakönnunum mun persónulegri spurningum um pólitískar skoðanir og afstöðu til viðkvæmra mála.

Menn hafa til dæmis almennt tekið vel spurningum Dagblaðsins um afstöðu til áfengismála, jafnréttismála, varnar- og utanríkismála. Íslendingar hafa reynzt furðanlega fúsir til að tjá sig, þegar eftir hefur verið leitað.

Eigi að síður kom í ljós, að sumir tóku manntalinu illa og voru andvígir sumum spurningum þess. Lesendadálkar dagblaðanna fylltust af margs konar gagnrýni, misjafnlega grundaðri eins og gengur. Komust þar færri að en vildu.

Ljóst er, að manntalsmönnum tókst að reita sumt fólk til reiði. Það er að vísu fámennur minnihluti, en hávær og áhrifamikill. Og niðurstaðan er auðvitað sú, að töluverð afföll eru á svörum við sumum spurninganna.

Skekkjur læðast að á ýmsa vegu. Ekki er hægt að gera ráð fyrir, að hóparnir, sem neita að svara ákveðinni spurningu eða svara henni viljandi út í hött, séu eins og hópurinn, sem svarar henni af beztu getu.

Hin skekkjan er þó enn alvarlegri, sem er kerfisbundin í ömurlegri aðferðafræði manntalsmanna. Þeir spyrja um staðreyndir sem væru þær skoðanir. Þeir rugla saman vísindalegum mælingum og félagsvísindalegum könnunum.

Lengd ferða til vinnu og tími til heimilisstarfa eru mælanlegir hlutir. Betri upplýsingar um slík atriði fást með mælingum á strangvísindalegan hátt hjá tiltölulega litlu úrtaki manna, heldur en með skoðanakönnun.

Manntalsmenn hafa látið blekkjast af glýju hins 100% úrtaks. En svörin mæla ekki raunveruleika, heldur hvað fólk ímyndar sér, að það hafi varið miklum tíma til ferða á vinnustað og til heimilisstarfa af mjög svo ýmsu tagi.

Augljóst er, hvernig jafnréttisráð, umferðarráð og alls konar ráð freistast í fátækt sinni til að hengja áhugamál sín á aðila, sem hefur fé til að framkvæma 100% skoðanakönnun meðal landsmanna, það er að segja manntalið.

Hitt verður að draga í efa, að hagnýtar upplýsingar fáist með því að troða fávíslegum spurningum í manntalið. Að minnsta kosti verður skoplegt að sjá lærðar greinar um meðaltíma íslenzkra karlmanna við heimilisstörf!

Sökin hlýtur að liggja hjá manntalsmönnum sjálfum. Þeir eiga að búa yfir þekkingu til að hafna spurningum, sem leiða til marklítilla svara, og spurningum, sem eru til þess fallnar að reita hluta þjóðarinnar til reiði.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið