Moby Dick sleppur enn

Greinar

Barátta Íslendinga fyrir hvalveiðum er farin að minna á þráhyggju Ahab skipstjóra, sem elti hvalinn Moby Dick árangurslaust um heimshöfin. Söguhetja rithöfundarins Herman Melville tapaði alltaf bardögunum og alltaf tapar Ísland í baráttu sinni við að hefja hvalveiðar að nýju.

Síðustu misserin hefur slagurinn einkennzt af tilraunum til að komast að nýju í Alþjóða hvalveiði-ráðið, sem við yfirgáfum í fússi fyrir áratug. Við getum ekki hafið hvalveiðar án aðildar, því að hún er eina leiðin til að selja afurðirnar. Japanir mega ekki kaupa hvalkjöt af ríkjum utan ráðsins.

Á fundi ráðsins í Japan var hafnað með fimm atkvæða meirihluta að taka umsókn Íslands á dagskrá, þar sem hún væri sama umsóknin og felld hafði verið í fyrra. Þetta kom áheyrnarfulltrúum Íslands í opna skjöldu, enda höfðu þeir gert sér rangar hugmyndir um afstöðu ríkja.

Sex ný ríki eru komin í ráðið síðan í fyrra og þar af fjögur, sem Japan hefur keypt til fylgis við hvalveiðar. Þetta dugði Íslendingum ekki, því að stórveldin með Bandaríkin í broddi fylkingar eru algerlega andvíg hvalveiðum og beittu sér gegn lögfræðilegri þrætubókarlist Íslendinga.

Við þessu eiga ráðamenn okkar engin svör nema reiðina. Hún beinist einkum að sænskum stjórnvöldum, því að sænskur formaður ráðsins fylgdi bandarískum ráðum um fundarsköp. Vandséð er þó, að sjávarútvegsráðherra Íslands geti framkvæmt hótanir um að hefna sín á Svíum.

Ísland er ekkert stórveldi, sem getur ráðskazt með hagsmuni Svíþjóðar. Tilraunir til slíks munu þvert á móti koma okkur í koll á öðrum sviðum, því að við þurfum mjög á Svíum að halda til að gæta hagsmuna okkar í Evrópusambandinu. Hótanir Árna Mathiesen eru því marklausar með öllu.

Vandi okkar er sá, að ríku þjóðirnar í heiminum, með Bandaríkjamenn í broddi fylkingar, eru algerlega andvígar hvalveiðum, fyrst og fremst af tilfinningalegum ástæðum. Hvalurinn Moby Dick er ein ástsælasta sagnapersóna heimsins og heldur verndarhendi yfir allri ættkvísl sinni.

Við tökum raunar þátt í vestrænu dálæti á hvölum. Íslenzk sveitarfélög keppast um að fá að hafa háhyrninginn Keikó. Hvalaskoðun er orðin svo mikilvæg atvinnugrein, að hugsanlegar tekjur af hvalveiðum yrðu aðeins skiptimynt til samanburðar. Við sitjum báðum megin borðsins.

Tilfinningar Vesturlandabúa nægja einar til að hindra hvalveiðar okkar, hvað sem öllum rökum líður. Bandaríski fulltrúinn í ráðinu kvað þó fast að orði um röksemdir Íslendinga og Japana um, að hvalur éti fisk frá mönnum. Hann sagði þetta vera bull til að draga athygli frá ofveiði á fiski.

Nú er úr vöndu að ráða. Japanir hafa ekki fé til að kaupa fleiri smáríki í hvalveiðiráðið. Til að komast í ráðið verðum við að falla alveg frá fyrirvörum, sem meirihluti aðildarríkjanna hafnar. Síðan geta fulltrúar Íslands reynt að byrja á nýjum núllpunkti og hefja þrætubók innan ráðsins.

Eitt er ljóst. Ísland mun áfram berja höfðinu við steininn eins og Ahab skipstjóri. Þráhyggjan er hornsteinn hugsunar okkar eins og hans. Áfram verður fé og orku eytt í vonlausar tilraunir til að tefla málum í þá stöðu, að við getum hafið hvalveiðar og farið að selja hvalkjöt að nýju.

Á sama tíma munum við halda áfram að auka tekjur okkar af ást Vesturlandabúa á hvölum. Við munum rækta hina meiri hagsmuni meðan við náum ekki fram hinum minni hagsmunum.

Jónas Kristjánsson

FB