Not af EFTA.

Greinar

Fríverzlunarsamtök Evrópu, EFTA, eru um þessar mundir að safna upplýsingum um ríkisstyrki í atvinnulífi aðildarlandanna. Þessi athugun, gerð að frumkvæði Íslands, er vel á veg komin.

Það var í fyrra, að Davíð Scheving Thorsteinsson, formaður Félags íslenzkra iðnrekenda, kvartaði yfir því hjá samtökunum, að slíkir styrkir gætu spillt samkeppnisaðstöðu hliðstæðra atvinnugreina í öðrum þáttökulöndum.

Þegar tollar eru afnumdir, er stundum freistandi að lauma verndinni inn bakdyramegin. Íslendingar eru ekki barnanna beztir, svo sem sannar dæmið um innborgunarskyldu á innfluttum húsgögnum.

Sænsk stjórnvöld virðast hafa gengið einna lengst á þessu sviði. Sumpart er heil atvinnugrein lögð á herðar ríkisins, svo sem sænski skipaiðnaðurinn.

Meira er þó um aðstoð, sem bundin er við ákveðin landsvæði eða iðnaðarþætti, ýmist í formi greiðslna til fyrirtækja eða beint til starfsmanna þeirra.

Þessi aðstoð getur sumpart verið réttlætanleg, til dæmis á grundvelli byggðastefnu. En menn hafa þó áttað sig á, að hún getur gengið út í öfgar, beinzt gegn hagsmunum grannþjóða, spillt fríverzlun þjóða milli.

Búast má við, að upplýsingasöfnun EFTA leiði til samkomulags um, hver og hversu mikil ríkisaðstoð megi vera án þess að teljast brot á samkomulagi aðildarríkjanna um frjálsa verzlun.

Þetta er dæmi um gagn, sem lítil þjóð á borð við Ísland getur haft af þátttöku í samtökum á borð við EFTA. Fríverzlunarstefna er líka bráð nauðsyn hverri þjóð, sem hefur útflutning að hornsteini atvinnulífsins.

Fríverzlunarsamtökin eru einmitt í okkar stíl og anda. Þar er ekki um að ræða efnahagslega samræmingu, sem stefnir að samruna, eins og í Efnahagsbandalaginu, heldur eingöngu frjálsa verzlun, gagnkvæman aðgang að mörkuðum.

Þetta er einmitt ástæðan fyrir dálæti Svisslendinga á EFTA. Þar telja þeir sig ná helztu kostum viðskiptasamstarfs milli ríkja án þess að fórna neinu af grunnmúraðri og sögufrægri sjálfstæðisstefnu sinni.

Ekki má heldur gleyma, að Fríverzlunarsamtökin voru á sínum tíma lykill okkar að Efnahagsbandalaginu. Það var stórsigur frjálsrar verzlunar, þegar þessi tvö samtök sömdu um afnám tolla milli aðildarríkja beggja samtaka.

Þar með opnaðist frjáls markaður um alla Vestur-Evrópu, án þess að smáríki eins og Sviss og Ísland neyddust til að sogast inn í flókið samrunakerfi stórvelda Efnahagsbandalagsins.

Samt eru not okkar af EFTA ekki eins mikil og þau gætu verið. Enn hefur ekki tekizt að koma því í kring, að fiskafurðir séu taldar iðnaðarvörur, en ekki landbúnaðarvörur.

Á sínum tíma reyndu fulltrúar Íslands að ná fiskafurðum á borð við mjöl, lýsi og lagmeti undir frjálsa markaðinn. Síðan var gefizt upp, enda minna í húfi, þegar Ísland hafði náð tiltölulega hagstæðum tollasamningi við Efnahagsbandalagið.

En það er engin ástæða til, að Ísland njóti síðri kjara í sínum eigin samtökum en í Efnahagsbandalaginu. Og auk þess á það að vera hornsteinn viðskiptastefnu okkar, að sem víðast séu fiskafurðir viðurkenndur hluti hins frjálsa markaðar.

Tímabært er að vekja aftur þetta mál í Fríverzlunarsamtökunum, rexa og pexa um það af stakri þolinmæði, unz hin þáttökulöndin þreytast vegna skorts á eiginhagsmunum og gefast upp.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið