Ógnun við heimsfriðinn

Punktar

Ný öryggismálastefna Bush Bandaríkjaforseta, sem gefin var út í gær, staðfestir tæpitungulaust aukna hörku í samskiptum við umheiminn. Hún var túlkuð í gær af David E. Sanger í New York Times. Samkvæmt henni áskilja Bandaríkin sér rétt til að ráðast að fyrra bragði á erlend ríki og erlenda hópa, sem þau telja ógna bandaríska heimsveldinu eða keppa við Bandaríkin í gereyðingarvopnum. Bandaríkin munu ekki lengur virða þegar gerða sáttmála um takmörkun vígbúnaðar. Þau munu ekki láta fjölþjóðasamstarf standa í vegi bandarískra hagsmuna og þau munu ekki virða stríðsglæpadómstólinn í Haag. Stefnuskráin járnbindur nýja stöðu Bandaríkjanna: Þau eru orðin mesta ógnunin við heimsfriðinn.