Ljóst er, að hækkun Kjaradóms á launum þingmanna og háskólamanna verður ekki hnekkt. Tillaga fjármálaráðherra hefur ekki fengið hljómgrunn í ríkisstjórninni. Þar er litið á úrskurðinn sem hnekki, er stjórnvöld verði að sætta sig við.
Í deilum þessa máls hefur gætt vanhugsunar og misskilnings. Þátttakendur vilja ekki sjá nein tilbrigði í röksemdum. Þeir vilja flokka öll sjónarmið í tvær skúffur, aðra fyrir þá, sem eru með, og hina fyrir þá, sem eru á móti.
Sumpart er talið, að deilan snúist um, hversu há laun þingmenn skuli hafa. Og sumpart er talið, að deilan snúist um, hvort stjórnvöldum leyfist að krukka í úrskurði dómstóla. Hvorugt er rétt, nema að tiltölulega lítilfjörlegum hluta.
Í fyrsta lagi hafa bráðabirgðalög á sér of neikvætt orðspor. Ekki er hægt að bera saman tíðni bráðabirgðalaga í flóknum og hraðfleygum nútíma saman við tíðnina fyrr á áratugum, þegar þjóðfélagið var einfaldara og hæggengara.
Eina leiðin til að draga úr nauðsyn bráðabirgðalaga er að láta alþingi sitja lengur, stytta jólafrí þess og einkum þó sumarfrí. Þegar alþingi starfar aðeins hálft árið, er nauðsynlegt, að hlaupið sé í skarð þess til bráðabirgða.
Í öðru lagi er rangt að tala um Kjaradóm sem þátt í sjálfstæðu dómskerfi landsins. Kjaradómur á ekki að túlka landslög og úrskurðum hans verður ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Það er villandi, að hann skuli heita “-dómur”.
Hann gæti alveg eins heitið Kjararáð, Kjaranefnd eða Kjarasemjari. Enda er verksvið hans mun skyldara verðlagsráðum og -nefndum, svo og sáttasemjara. Kjaradómur er nefnilega hluti af stjórnkerfi landsins, framkvæmdavaldinu.
Hitt er svo líka rétt, að Kjaradómur á að skera úr launadeilum, þar sem ríkisvaldið er annar málsaðila. Þess vegna má ætla, að ríkisstjórn sé ekki dómbær um, hvort úrskurðir séu svo vondir, að þeim þurfi að hnekkja með lögum.
Af þeirri ástæðu er rétt að fagna, að ríkisstjórnin skuli hafa neitað afskiptum af Kjaradómi. Málið er búið og gert. En í framtíðinni þarf Kjaradómur að bæta ráð sitt, ef hann á ekki að teljast krabbamein í ríkinu.
Í þriðja lagi er rangt að tala um, að áróðursmenn séu að reyna að spilla því, að þingmenn fái sanngjörn laun fyrir mikla vinnu og ábyrgð. Það eru ekki launin sjálf, heldur vinnubrögð við ákvörðun þeirra, sem gagnrýnd hafa verið.
Til skamms tíma ákváðu þingmenn sjálfir laun sín og ýmis fríðindi. Það gerðu þeir með ýmsu pukri og einkum þó með því að úrskurða sér skattfrelsi í fríðindum, sem skattlögð eru hjá öðrum. Þetta pukur gekk sér til húðar.
Mun skárra er að hafa valdið hjá Kjaradómi. En á því er sá hængur, að lögin um breytinguna gerðu ekki ráð fyrir, að skattlagning fríðinda þingmanna yrði samræmd skattlagningu fríðinda annarra manna. Og dómurinn lét það spillta kerfi í friði.
Því er vel hægt að halda fram með rökum, að laun þingmanna séu of lág, jafnvel allt of lág, og að þau hvetji ekki hæfa menn til þingmennsku. En þar með er ekki sagt, að þingmenn megi bæta sér það upp með flóknu fríðindasvindli.
Uppákoma Kjaradóms hefur valdið umræðum um stöðu stofnunarinnar, réttmæti bráðabirgðalaga og stöðu alþingis. Sumt af því hefur verið fróðlegt, en meira hefur þó stungið í augun óhófleg einföldun á flóknum málsatriðum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið