Okkar börn í ánauð

Greinar

Frekasta fyrirtæki landsins lætur sér ekki nægja að hafa fengið gefins einkaleyfi fyrir miðlægum gagnagrunni heilsufars landsmanna. DeCode Genetics vill nú fá 20 milljarða króna ríkisábyrgð fyrir að koma á fót lyfjafyrirtæki hér á landi. Annars verði fyrirtækið í Bandaríkjunum.

Ríkisábyrgð felur í sér, að gróði er einkavæddur, en tap er ríkisrekið. Hagfræðilega séð er ríkisábyrgð af hinu vonda, því að hún truflar markaðslögmál framfara og lætur eðlilega þróun atvinnulífsins víkja fyrir gæluverkefnum, sem stjórnvöld reyna að koma upp með handafli.

Ríkisábyrgðir eru lítið notaðar í útlöndum, en voru vinsælar hér á landi fyrr á árum til að reyna að þjófstarta nýjum töfralausnum í atvinnuvegum, svo sem fiskeldi og loðdýrarækt og svo auðvitað til að þjónusta fyrirtæki, sem stjórnvöldum hvers tíma hafa verið sérstaklega þóknanleg.

Stefna ríkisábyrgða hefur sem betur fer verið á undanhaldi hér á landi. Helzt eru það lánastofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins, sem njóta ríkisábyrgða. Í þeim tilvikum er ríkið að ábyrgjast eigin stofnanir og fyrirtæki, en ekki að taka á sig ábyrgð af gerðum aðila úti í bæ.

Ríkið hefur skattlagningarvald og verðskráningarvald til að tryggja, að stofnanir og fyrirtæki á þess vegum geti staðið við skuldbindingar sínar. Borgararnir verða að greiða fyrir misheppnaðar framkvæmdir ríkisins, en taka ekki eftir því, af því að tjónið er inni í heildarsukki þess.

Stjórnvöld hafa nú til vinsamlegrar athugunar, hvort veita eigi deCode Genetics eða dótturfyrirtæki þess 20 milljarða króna ríkisábyrgð. Ef litið er á gengi hlutabréfa deCode í kauphöllum, má fullyrða, að óvenjulega áhættusamt er að þjóðnýta hugsanlegt tap af dótturfyrirtækinu.

Ef stjórnvöld hafa áhuga á að þjófstarta atvinnurekstri í þekkingariðnaði hér á landi, eiga þau betri kosta völ en að kasta 20 milljörðum í pilsfaldakapítalisma. Þau geta hagað málum almennt á þann veg, að freistandi sé að reisa hér ný fyrirtæki á sviðum þekkingariðnaðar.

Stjórnvöld geta tekið upp evru eða dollar sem gjaldmiðil. Þau geta afnumið tolla á rekstrarvörum og komið upp pappírslausum viðskiptum. Þau geta keypt iðngarða, netvætt þá og boðið nýjum fyrirtækjum í þekkingariðnaði að stíga þar fyrstu skref lífsbaráttunnar á lágri húsaleigu.

Ríki og borg geta gert ótalmargt til að stuðla almennt að uppgangi þekkingariðnaðar án þess að grípa til sértækra aðila í þágu útvalins gæludýrs, sem hefur staðið sig óvenjulega illa á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði. Opinberar aðgerðir eiga að vera almennar, en ekki sértækar.

Í tilviki deCode Genetics nemur fyrirhuguð ríkisábyrgð tæplega 280.000 krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Það er skatturinn, sem hver fjölskylda á að greiða þessu fyrirtæki, af því að það er miklu frekara til fjárins en nokkurt annað fyrirtæki í landinu.

Með þessu erum við í rauninni að veðsetja börnin okkar fyrir mesta taprekstrarfyrirtæki í landinu. Við erum að setja börnin okkar í skuldafangelsi til að þjónusta eitt gæluverkefni líðandi stundar, í stað þess að nota opinbert fé til að búa til hagkvæma ramma fyrir ný fyrirtæki.

Ríkisábyrgðir til einkarekstrar fela í sér þá tegund kapítalisma, sem er verri en kommúnismi. Það er pilsfaldakapítalisminn, sem við þekkjum bezt úr fiskeldinu og loðdýraræktinni.

Jónas Kristjánsson

FB