Sígjaldþrota raunsæisstefna.

Greinar

Þegar íslenzkir aðilar tóku þátt í hjálparstarfi í Biafra, heyrðust raddir um, að hjálpin gæti skaðað skreiðarsölur til Nígeríu. Íslendingar væru fáir og smáir og yrðu að líta á utanríkismál sem hrein og köld viðskipti.

Þessar raddir fengu ekki að ráða ferðinni. Menn töldu, að almennar hugmyndir um mannréttindi, þar á meðal réttinn til að lifa, væru svo mikilvægar, að taka mætti nokkra fjárhagslega áhættu til að styðja þær í verki.

Á Vesturlöndum hafa frönsk stjórnvöld komizt einna lengst á þeirri braut, að utanríkismál væru hreint valdatafl, þar sem gæta skyldi franskra hagsmuna í hvívetna án tillits til nokkurra mannlegra eða siðrænna sjónarmiða.

Franskur vopnaiðnaður hefur hagnazt töluvert á þessari stefnu. Frönsk vopn hafa ævinlega verið til reiðu handa harðstjórum þriðja heimsins, þegar önnur vestræn ríki hafa fyrir sitt leyti bannað slíkar vopnasölur.

Að baki hinni frönsku afstöðu liggur svonefnd raunsæisstefna í utanríkismálum. Samkvæmt þeirri stefnu felst óleyfilegt veiklyndi í þeirri stefnu Carters, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, að blanda mannréttindahugmyndum saman við.

Við verðum að vera raunsæir, segja valdshyggjumennirnir. Við verðum að gæta hagsmuna útflutningsiðnaðar okkar, þar á meðal vopnaframleiðslunnar. Við verðum að gæta pólitískra hagsmuna okkar í ríkjum, þar sem stjórnarfar er vont.

Í krafti þessarar stefnu vinguðust frönsk stjórnvöld ákaflega við Bokassa, þáverandi keisara í Mið-Afríku. Giscard d’Estaing auðsýndi honum vináttu, fór með honum á veiðar og er nú grunaður um að hafa þegið af honum demanta.

Þar á ofan liggur nú fyrir í opinberu ákæruskjali sú fullyrðing, að einn ráðherra Frakklands hafi snætt mannakjöt í veizlum hjá Bokassa. Slíkt át var einmitt helzta ástríða keisarans, önnur en að berja, limlesta og drepa börn og fullorðna.

Raunsæisstefna af þessu tagi virðist ekki gera ráð fyrir þeim möguleika, að vesalings fólkið í löndum “vinveittra” harðstjóra geti risið upp og rekið þá af höndum sér. Bokassa valt úr sessi og spillti þannig hinu franska tafli.

Giscard d’Estaing hefur upp á síðkastið haft verulegan ama af stuðningnum við Bokassa. Uppljóstranir um barnamorð og mannakjötsát eiga umtalsverðan þátt í, að frönsku forsetakosningarnar í vor eru allt í einu orðnar tvísýnar.

Skoðanakannanir sýna, að frambjóðandi jafnaðarmanna, Mitterand, hefur um þessar mundir meira fylgi en forsetinn, aldrei þessu vant. Og nýtur Mitterand þó ekki stuðnings kommúnista að þessu sinni.

Bandaríska útgáfan af frönsku raunsæisstefnunni felst í að styðja þá harðstjóra þriðja heimsins, sem segjast vera virkir andstæðingar kommúnismans. Til dæmis Reza Pahlevi í Íran, Pinochet í Chile, Batista á Kúbu og Papa Doc á Haiti.

Við stjórnarskiptin í Bandaríkjunum komust aftur til valda menn, sem halda því blákalt fram, að raunsætt sé að styðja harðstjóra þriðja heimsins til að forða þjóðum þeirra frá enn verra oki kommúnismans.

Samt er þessi raunsæisstefna margreynd. Hún hrekur á sjálfvirkan hátt almenning í fang þeirra afla, sem eru sameiginlegir óvinir harðstjóranna og Bandaríkjanna. En Reagan og menn hans virðast því miður ekki vel að sér í sagnfræði.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið