Styrkur í klofningi.

Greinar

Styrkur Sjálfstæðisflokksins felst einkum í klofningi hans. Þetta er þverstæða, sem skoðanakannanir Dagblaðsins hafa staðfest á ítrekaðan hátt. Og hún torveldar flokknum að nýta sér hið mikla fylgi.

Um þessar mundir nýtur Sjálfstæðisflokkurinn fylgis 46% þeirra, sem afstöðu taka til flokka. Ef við gerum ráð fyrir, að hinir óákveðnu mundu í kosningum skiptast milli flokka eins og hinir ákveðnu, er Sjálfstæðisflokkurinn 46% flokkur.

Slík fullyrðing er þeim annmörkum náð, að hinir óákveðnu hafa upp á síðkastið haft tilhneigingu til að skiptast ójafnt milli flokka. Í einum kosningum hallast meirihluti þeirra að Alþýðuflokknum og næst að einhverjum öðrum flokki.

Á síðustu árum hefur myndazt og eflzt hópur kjósenda, sem hafnar flokkunum, þótt hann kjósi þá í kosningum. Þessi hópur, sem telur upp undir þriðjung kjósenda, hlýtur að vera og verða gífurlega áhrifamikill í kosningum.

Í sjálfu sér ætti Sjálfstæðisflokkurinn ekki að hafa minni von í þessum kjósendum en aðrir flokkar. Við vissar aðstæður ætti hann raunar að hafa meiri von og þar með komizt í þá aðstöðu að njóta fylgis rúmlega helmings kjósenda.

Þessi fjölmenna sveit er náttúrlega ekki hreintrúuð á íhaldið. Hún hefur ekki bókstafstrú á Milton Friedman, Hannesi Gissurarsyni eða Geir Hallgrímssyni. Þvert á móti er þetta hin sundurleitasta og frjálslyndasta hjörð.

Hún styður ekki einu sinni formann flokksins og þingflokk hans í stjórnarandstöðunni. Skoðanakannanir Dagblaðsins benda til, að allur þorri hins óákveðna þriðjungs kjósenda fylgi ríkisstjórninni að málum um þessar mundir.

Sjálfstæðisflokkurinn á lögmæta von í myndarlegri hlutdeild í stærsta flokki landsins, hinum flokkslausu kjósendum, sem nú hallast að ríkisstjórninni. Og margir stjórnmálamenn hafa fengið fiðring af minna tilefni.

Ofan á þetta bætist svo, að helmingur þeirra, sem játaðist Sjálfstæðisflokknum í síðustu skoðanakönnun, segist líka styðja ríkisstjórnina. 49% sögðust styðja hana, 36% voru henni andvígir og aðeins 15% hlutlausir.

Þannig má skipta Sjálfstæðisflokknum í að minnsta kosti þrjá stjórnmálaflokka. Fyrst ber frægt að nefna svokallað ,,flokksbrot,’ Geirs Hallgrímssonar með tæplega þriðjungi í kjósendavon Sjálfstæðisflokksins.

Í öðru lagi koma svo hinir yfirlýstu sjálfstæðismenn, er sem Gunnarsmenn, Albertsmenn eða af einhverjum öðrum ástæðum eru hlynntir ríkisstjórninni. Þar er rúmlega þriðjungur af kjósendavon Sjálfstæðisflokksins.

Í þriðja lagi eru svo hinir flokkslausu ríkisstjórnarsinnar, sem væru líklegri til að kjósa flokkinn fremur en einhvern annan flokk. Þar er kominn enn einn þriðjungurinn af kjósendavon Sjálfstæðisflokksins.

Af þessu getur kosningamaskína Sjálfstæðisflokksins ekki aðeins lært, að stjórnarandstaða formanns og þingflokks er marklaus della. Hún getur líka farið að efast um, að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi endilega að vera samhentur.

Af hverju býður flokkurinn ekki fram í tvennu lagi hið minnsta til að sýna kjósendum mismunandi fleti? Það gæti hreinlega leitt til fylgis meirihluta kjósenda. Þannig virðist styrkur Sjálfstæðisflokksins einkum felast í klofningnum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið