Svara ekki bréfum.

Greinar

Embættismenn, sem koma saman að tjaldabaki til að úthluta hver öðrum greiðslum fyrir ómælda aukavinnu, hafna afskiptum almennings af fleiri atriðum en því einu. Þeir vilja að fornum sið fá að stjórna þjóðinni í friði.

Sumir þeirra telja sig jafnvel hafna yfir lög. Annað er ekki hægt að sjá af viðbrögðum þeirra við afskiptum Neytendasamtakanna af ýmissi innheimtu, sem virðist örugglega ólögleg. Þeir taka ekkert mark á framíköllum.

Þetta gætu þeir auðvitað ekki, nema með stuðningi ráðherra. Milli embættismanna og ráðherra hefur myndazt traust varnarbandalag, sem kemur bæði fram í hinum leynilegu aukavinnugreiðslum og þögninni í innheimtumálunum.

Í þeim efnum er það stefna ráðuneytanna að draga Neytendasamtökin á svari og bíða eftir, að þau gefist upp á eltingaleiknum. Það er gamalkunn og áhrifarík aðgerð til að eyða mótbárum og svæfa óþægileg mál.

Ragnar Arnalds, þáverandi samgönguráðherra, svaraði aldrei bréfi Neytendasamtakanna í fyrra um ólöglega innheimtu fyrir símasnúrur. Sú innheimta var svo sem ekki stórvægileg, en sýndi þó hugsanagang ráðamanna Pósts og síma.

Steingrímur Hermannsson, núverandi samgönguráðherra, hefur ekki svarað bréfi Neytendasamtakanna um ólöglegt afnotagjald af aukabúnaði. Sú innheimta sýnir, að ráðamenn Pósts og síma taka ekkert mark á fyrra þrasi neytenda.

Ingvar Gíslason menntamálaráðherra hefur ekki svarað bréfi Neytendasamtakanna um ólöglega innheimtu útvarpsgjalda. Hann hefur heldur ekki komið í veg fyrir lögtök til innheimtu þessara ólöglegu útvarpsgjalda.

Neytendasamtökin eru of fámenn og því ekki eins öflug og þau þyrftu að vera. Þau kveinka sér við að fara í hart og höfða mál gegn hinum þögulu ráðherrum, sem eru að reyna að eyða málunum. Til greina eru þó talin koma málaferli.

Allir þeir, sem áhuga hafa á verndun almennings fyrir ofríki embættismanna af fornum skóla stiftamtmanna, ættu að ganga í Neytendasamtökin og styðja þau til varna í málum sem þessum.

80.06.25.

Stétt til skammar.

Stétt dýralækna hefur undir forustu yfirdýralæknis orðið sér til mikillar skammar á undanförnum árum. Þessi þrýstihópur hefur komið í veg fyrir, að dýraspítalinn gæti hafið störf með eðlilegum hætti. Saga málsins er hin ljótasta.

Fyrst neituðu dýralæknar að starfa við spítalann. Þegar þrautreynt var hér heima, fengust dýralæknar erlendis. Í veg fyrir það var komið á þeim forsendum, að samtök dýravina væru að taka atvinnu frá íslenzkum dýralæknum.

Þegar óvinsældir málsins urðu ljósar, buðust þrír dýralæknar til að taka spítalann leigulaust og reka hann í aukavinnu fyrir eigin reikning. Þetta var eitt af hinum frægu einokunarboðum, sem ekki á að vera hægt að hafna.

Dýravinir létu sér ekki segjast og hafa um skeið fengið danskan dýralækni til starfa. Yfirdýralæknir hefur nú að ráði samtaka dýralækna ákveðið að neita manni þessum um atvinnumeðmæli. Dýraspítalinn hefur aftur á móti höfðað mál gegn yfirdýralækni.

Þetta er flókið mál lagakróka. En eitt er þó ljóst, að dýravinátta ræður ekki ferð yfirdýralæknis og annarra íslenzkra dýralækna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið