Það kom vel á vondan, að formaður Verðlagsráðs skyldi kæra formann Bæjarútgerðar Reykjavíkur fyrir verðlagsbrot. Þessir formenn eru nefnilega einn og sami maðurinn, Björgvin Guðmundsson embættis- og alþýðuflokksmaður.
Því miður er fólk orðið næsta ónæmt fyrir skrípaleikjum þeim, sem Björgvini og Georgi Ólafssyni verðlagsstjóra er falið að annast á vegum ríkisstjórna, sem kunna þá list helzta að stela fé af fólki og að þjóðnýta fólk.
Verðlagseftirlit er greinilega fáránlegt, þegar það leiðir til flokkunar brauða í vísitölubrauð og önnur brauð – og fisks í vísitölufisk og annan fisk. Þeir menn, sem slíku stjórna, eru ekki að halda niðri verði í landinu.
Þegar þjónustumenn neytenda eru svo eltir uppi með hótunum og kærum til að viðhalda vísitölubrauði og vísitölufiski, er það til svívirðu öllum þeim, sem á snerta, bæði skítverkamönnum og sjálfri ríkisstjórninni að baki.
Verðlagseftirlit hér á landi er orðið helsjúkt, enda lent í þeim ógöngum að berjast fremur við afmarkaðar tölur á blaði en flókinn raunveruleika. Um leið felur skrípaleikurinn í sér lögverndaða, opinbera glæpastarfsemi.
Enginn á að leggja hönd að verknaði, sem felur í sér, að menn séu látnir gefa með vinnu sinni fyrir tölur á blaði. Stuldur með verðlagsákvæðum og -úrskurðum er stuldur, þótt hann sé framinn í opinberum fílabeinsturni.
Einna fyrirlitlegasta mynd fær þessi iðja, þegar bæjarútgerðin er neydd til að selja fisk á októberverði, þótt hún verði sjálf endanlega að kaupa hann á janúarverði, sem enn hefur ekki verið birt, en verður mun hærra.
Auk þessa grófa dæmis líðandi stundar er hið svokallaða verðlagseftirlit með neyzlufiski almennings sígilt dæmi um, hvílíkir búrar ráða hér ríkjum í samanburði við nágrannalöndin, sem hafa fisk að markaðsvöru.
Fiskur er alls staðar dæmigerð markaðsvara á dagprísum. Aflinn er misjafn frá degi til dags og kemur að landi í mislangri fjarlægð. Verðsveiflur valda því svo, að eftirspurn neytenda samræmist í sífellu hinu misjafna framboði.
Hverjum dettur í hug nema íslenzkum bitlingakörlum, að innlendan markað á neyzlufiski megi skipuleggja með verðlagsákvæðum? Hvernig eiga þeir Georg og Björgvin að vita, hvað er eðlilegt verð hverju sinni?
Fisksali, sem er duglegur þjónustumaður neytenda, þeytist til Suðurnesja eða á Snæfellsnes að næturlagi og skipuleggur flóknar reddingar með flutningabílum frá Húnaflóahöfnum. Hann vill hafa fisk, þótt heimahöfnin bregðist.
Í Reykjavík er auðvitað töluverður kostnaðarmunur á togarafiski frá Grandagarði og línufiski að norðan. Neytendur, sem vilja góðan fisk og aðgang að nokkru úrvali, hljóta að vilja borga mismuninn, þegar það á við.
Ribbaldar almannavaldsins hafa hér á landi reynt að koma í stað markaðslögmálanna. Afleiðingin er sú, að í sumum þessum fiskbúðum þessarar sjávarútvegsþjóðar er minna um ferskan fisk en hjá þjóðum, sem sjaldan líta saltan sjó.
Niðurstaðan af þessu er hin sama og á öðrum sviðum. Í Verðlagsráði er ekki verið að hjálpa neytendum. Þar er þvert á móti verið að níðast á neytendum til að þjónusta talnafölsunarhneigð stjórnvalda.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið