Þorskinum engin grið gefin.

Greinar

Fiskifræðingarnir hafa mælt með 300 þúsund tonna þorskafla á þessu ári. Þeir segja, að hrygningarstofninn muni sennilega minnka á næstu árum, ef aflinn verði umfram þetta, en sennilega stækka, ef aflinn verði innan við þetta.

Hvorki stjórnmálamenn né útgerðarmenn vefengja, að þekking fiskifræðinga sé eina þekkingin, sem við eigum völ á í þessum efnum. Þeir segjast bara þurfa að bæta félagslegum og efnahagslegum sjónarmiðum við hin fiskifræðilegu.

Sjávarútvegsráðherrann segir réttilega, að tölur fiskifræðinga séu ekki nákvæmar. Þegar þeir segi 300 þúsund tonn, gæti rétta talan hugsanlega verið 355 þúsund tonn. Með þessari röksemdafærslu friðar hann samvizku sína.

Sjávarútvegsráðherranum dettur auðvitað ekki í hug, að skekkja fiskifræðinganna sé í hina áttina og stofninn þoli aðeins 245 þúsund tonna afla. Eins og forverar hans túlkar hann tölur fiskifræðinganna jafnan í aðra áttina.

Þetta auðveldar stjórnmálamönnum að kljást við vandamál líðandi stundar á kostnað framtíðarinnar. Þetta sparar þeim að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir, sem ekki gefa arð fyrr en eftir nokkur ár.

Nú hefur sjávarútvegsráðherrann sparað sér svo mikið af slíkum ákvörðunum, að hann getur ekki haldið þorskaflanum innan við 355 þúsund tonn á árinu og hvað þá 300 þúsund tonnin, sem hann raunverulega átti að stefna að.

Með því að fjölga skrapdögum togaranna um 30 getur ráðherrann haldið ársaflanum í um það bil 380 þúsund tonnum. Með þessum viðbótardögum verður aðgerðaleysi togaranna komið upp í fjóra mánuði á ári.

Hins vegar stefnir þorskveiðin í 450 þúsund tonna ársafla, ef engar nýjar veiðihömlur verða settar til viðbótar hinum eldri. Sú tala er hvorki meira né minna en 50% hærri en 300 þúsund tonnin, sem fiskifræðingar vildu leyfa.

Í síðasta hefti Fjármálatíðinda Seðlabankans voru leiddar stærðfræðilíkur að því, að 380 þúsund tonna ársafli mundi stefna til hruns hrygningarstofnsins og verulegs samdráttar þorskafla eftir árið 1984.

Í þessum útreikningum er gert ráð fyrir, að samband sé milli stærðar hrygningarstofns og svonefndrar nýliðunar, þ.e. fjölda einstakra fiska í nýjum árgangi, einkum þegar hrygningarstofninn fer ört minnkandi.

Horfurnar eru því mun verri en sjávarútvegsráðherra og útgerðarmenn vilja vera láta. Þorskstofninn er í meiri hættu en þeir vilja viðurkenna. Þær takmarkanir, sem þeir hafa samið um, eru ekki nægilegar.

Þessir aðilar hafa allan fyrri helming ársins horft á allt of stóran flota skófla upp allt of miklum þorskafla. Frystihúsin hafa ekki einu sinni haft undan og fiskurinn hefur oft fallið í verði af þeirri ástæðu.

Ofveiðin hefur þar á ofan verið meiri en markaðir okkar þola. Frystigeymslur okkar eru að fyllast, bæði í Bandaríkjunum og hér umhverfis landið. Möguleikar á verkun í skreið og saltfisk eru að þrjóta.

Árum saman höfum við hunzað ráð fiskifræðinga og frestað vandamálum. Á hverju ári verður dýrara að grípa í taumana. Á næsta ári verður það dýrara en í ár. Og fljótlega verður það endanlega of seint.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið