Húsvíkingar halda ekki unga fólkinu í bænum út á boð um vinnu við bræðslupotta í kísilbræðslu. Og Blönduósingar halda ekki unga fólkinu í bænum út á vinnu við bræðslupotta í álveri. Skoðanakönnun hefur leitt í ljós, að hugur ungs fólks á landsbyggðinni stendur ekki til slíks. Áburðarverksmiðja Framsóknar freistar ekki heldur unga fólksins. Eigendur slíkra fabrikkna verða að leita til útlanda til að manna þær. Reynslan sýnir líka, að ekki verður til iðnaður, sem byggist á afurðum slíkra verksmiðja. Um tíma var reynd álpönnuverksmiðja í Þorlákshöfn, en hún dó drottni sínum. Allt eru þetta bara draumar fyrir þriðja heims fólk.