Upplýsingahraðbrautin

Greinar

Tvær byltingar hafa orðið á vegferð mannkyns eftir svonefndri upplýsingahraðbraut inn í framtíðina. Báðar tengjast þær internetinu, alþjóðlegu og næsta stjórnlausu galdrafyrirbæri, sem þenst út með ógnarhraða, án þess að nokkur aðili eigi eða skipuleggi internetið.

Fyrri byltingin var alþjóðlegi tölvupósturinn. Með tengingu við internetið getur fólk sent ódýran og leifturhraðan póst um heim allan og tekið við slíkum pósti. Þetta gerist mun ódýrar og þægilegar en með faxi, enda varð þetta til að hleypa ofurvexti í internetið.

Önnur byltingin er að gerast þessa dagana. Með myndvirkum forritum getur fólk tengst internetinu og notað það án þess að þurfa að skilja neitt í tölvum eða skipanakerfum forrita. Fólk notar bara tölvumús og potar bendlinum í þá kosti, sem skjárinn býður hverju sinni.

Merkast við þetta er, að internetið hefur ekki sprungið, þótt notkun þess hafi margfaldazt með hverju ári og þyngd upplýsinga margfaldist snögglega við tilkomu myndvirkra forrita. Í rúmt ár hefur verið spáð hruni internetsins, en það heldur samt áfram vaxandi þenslu.

Næstmerkilegast er, að vel skipulögð upplýsinganet, sem einkum hafa náð fótfestu í Bandaríkjunum, geta alls ekki keppt við óskipulagt internet um hylli fólks og reyna nú hvert um annað þvert að tengjast internetinu svo nánum böndum, að viðskiptavinirnir flýi ekki.

Internetið hefur náð öruggri fótfestu hér á landi. Ísinn braut íslenzka menntanetið, sem á rætur sínar á Kópaskeri á Melrakkasléttu. Menntanetið íslenzka hefur vakið alþjóðlega athygli, svo sem sjá má af skjölum frá Evrópusambandinu um upplýsingahraðbraut nútímans.

Dæmi Kópaskers og íslenzka menntanetsins sýnir einmitt í hnotskurn, að internetið er þess eðlis, að það jafnar aðstöðu þeirra, sem búa afskekkt og hinna, sem búa í þungamiðjum heimsins. Kópasker getur keppt á jafnréttisgrundvelli við Reykjavík, London og New York.

Pappírslaus viðskipti eru í augsýn. Þar á meðal er sjálfvirk færsla upplýsinga milli sviða, svo sem frá vörupöntun, yfir flutningaskýrslur, tollpappíra, hvers konar bókhald fyrirtækja og skattskýrslur til sölunótna. Það verður hamingjudagur, þegar tollskjöl fá afgreiðslu á neti.

Svipuð bylting verður í útgáfustarfi. Internetið jafnar þar aðstöðuna. Fólk getur stofnað eigin prentsmiðju og útgáfufyrirtæki á internetinu með óverulegum stofnkostnaði. Þúsundir aðila víða um heim hafa byrjað að feta sig fram eftir þessari akrein hraðbrautarinnar.

Verið er að finna traustari leiðir til að auðvelda greiðslur á internetinu, án þess að netþjófar geti komizt yfir plastkortanúmer fólks og misnotað þau. Verið er að finna traustari leiðir til að rugla og afrugla viðkvæmar upplýsingar, svo að óviðkomandi aðilar komist ekki í þær.

Enn er internetið niðurgreitt af háskólum og öðrum opinberum stofnunum, sem halda úti stofnæðum netsins notendum að kostnaðarlausu, svo að þeir þurfa aðeins að greiða verð innanbæjarsímtala. Búast má við, að það óraunhæfa dæmi verði fyrr en síðar reiknað upp á nýtt.

Mikilvægt er, að íslenzk stjórnvöld sjái um, að upplýsingahraðbrautin haldist ódýr fyrir innlenda notendur, þótt hún hætti að vera alveg ókeypis. Einnig er mikilvægt, að stjórnvöld knýi opinberar þjónustustofnanir til að vera með og taka á sig kostnað á móti sparnaði sínum.

Vaxtarbrodd upplýsingahraðbrautarinnar er að finna á óskipulögðu interneti, sem enginn á og enginn rekur. Saga þess verður áfram undarlegt og ótrúlegt ævintýri.

Jónas Kristjánsson

DV