Utan við lög og rétt.

Greinar

Séra Jón Bjarman, sem hefur verið fangaprestur í rúman áratug, lýsti í viðtali við Dagblaðið á mánudaginn óánægju sinni með afgreiðslu dómsmálayfirvalda á kærum, sem hann hefur flutt um óviðeigandi meðferð fanga í Síðumúla.

Fyrst óskaði hann árið 1976 eftir rannsókn á kærum um, að fangar hefðu verið lagðir á gólf einangrunarklefa, járnaðir á höndum og fótum og festir annars vegar við stólfót, sem skrúfaður var við gólfið, og hins vegar við rúmfót.

Presturinn fékk aldrei að sjá niðurstöður úr þeirri athugun . Honum var hins vegar tilkynnt kurteislega í bréfi, að hann skyldi ekki hugsa meira um þetta mál. Þetta svar ber greinileg merki undanbragða dómsmálaráðuneytisins.

Næst óskaði séra Jón árið 1978 rannsóknar á meðferð fanga, sem töldu, að sér hefði verið misþyrmt, bæði líkamlega og með ógnunum. Í þeim kærum kenndi margra grasa, sem hljóta að teljast langt utan við lög og rétt.

Gripið átti að hafa verið í hár fanga og honum kippt og hrint til og frá og hann síðan löðrungaður. Þetta átti að hafa gerzt að viðstöddu fjölmenni, sex fulltrúum dómsvaldsins og þremur gæzluföngum.

Ekki voru svo mörg vitni að öðrum kærumálum, svo sem beitingu fótjárna tvisvar í þrjár vikur í senn, heftiplástrum fyrir munn, skipulega hindrun svefns, neitun um lesefni og skriffæri og sífellda notkun hrakyrða.

Í fyrsta tilvikinu var engin skýrsla gerð um yfirheyrsluna, þótt hana væru viðstaddir bæði vararíkissaksóknari og fulltrúi yfirsakadómara. En það er því miður ekki nýtt, að lögregluyfirvöld bóki það, sem þeim þóknast.

Niðurstaðan af beiðni sr. Jóns um óvilhalla rannsókn var sú, að árið 1979 var hún falin vararannsóknarlögreglustjóra, sem þar með tók að sér að athuga sakarefni bæði yfirmanns síns og undirmanna, það er að eyða málinu.

Við yfirheyrslur virtust flestir fulltrúar dómsvaldsins hafa misst minnið. Yfirfangavörðurinn neitaði að hafa löðrungað fangann, en játaði svo, þegar vararíkissaksóknari og einn rannsóknarlögreglumaðurinn vottuðu löðrunginn.

Útkoman varð sú, að fangaverðir voru áminntir um að vera ekki að yfirheyra fanga, enda er þeim bannað það með lögum, en að öðru leyti þótti ekki ástæða til að ætla, að játningar fanganna væru fengnar með þvingunum.

Þetta síðasta skiptir miklu. Samkvæmt lögum eru ógildar þær játningar, sem fengnar eru með þvingunum . Dómsmálaráðuneytið komst því hér naumlega fyrir horn með því að beita rannsókn, sem alls ekki getur talizt óvilhöll.

Það er ekki furða, þótt prestinum sé brugðið. Hann hafði komizt að því, að fangaverðir lugu um, að fangar vildu ekki hitta hann. Hann hafði reynt, að fangi var færður honum í fótjárnum og bannað lengra en 10 mínútna viðtal.

Við teljum okkur lifa í réttarríki, þar sem hefðir, reglur og lög hafa þróazt á löngum tíma og gilda um alla menn, líka þá, sem grunaðir eru um að hafa brotið lög. Þessu réttarríki má ekki spilla með skilningsleysi eða athugunarleysi.

Tímabært er orðið, að dómsmálaráðherra og ráðuneyti hans gangi úr skugga um, að í Síðumúla verði aldrei beitt neinum þeim brögðum, sem eru utan ramma þess réttarríkis, er þróazt hefur á löngum tíma á Vesturlöndum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið