Fiskirækt er fleira en að stunda klak og setja seiði í ár. Fiskirækt er orðin búgrein eða nánast eins og iðnaður, þar sem full stjórn er höfð á öllum ytri skilyrðum og matfiskurinn kemur á markað, svo sem af færibandi væri.
Hingað til hefur fiskirækt umfram seiðaeldi einkum verið stunduð í sjókvíum, sem víða má sjá í norskum fjörðum. Þar eru aldir upp verðmætir fiskar, aðallega lax, og þeim slátrað, þegar þeir eru komnir í hæfilega markaðsstærð.
Að Húsatóftum við Grindavík hefur ungur vísindamaður, Sigurður St. Helgason lífeðlisfræðingur, stigið skrefi lengra. Hann ræktar laxinn uppi á landi til þess að geta haft betri stjórn á aðstæðum en hægt er í sjókvíum.
Ræktunin byggist á volgu vatni úr borholum. Það heldur vatninu í fiskeldiskerjunum nokkurn veginn stöðugu við 10°C. Vindkæling á veturna hefur valdið erfiðleikum, en verður nú hindruð með því að þekja kerin.
Annar hornsteinn rekstrarins er loðna og fiskúrgangur frá fiskvinnslustöðvum Grindavíkur. Þetta er heppileg fæða fyrir laxinn. Um fimm kíló af loðnu fara í að framleiða eitt kíló af laxi. Og verðmunurinn er gífurlegur.
Með þessum hætti er unnt að rækta lax að Húsatóftum árið um kring. Eftir um sjö mánaða eldi er um helmingur af laxinum kominn upp í hálft þriðja kíló á þyngd, þá þyngd sem yfirleitt er talin bezt til matar.
Markaður fyrir lax er nokkurn veginn mettaður hér á landi, svo að þetta er óhjákvæmilega útflutningsiðnaður. Markaðurinn er talinn mjög traustur, jafnvel þótt laxeldi fari mjög ört vaxandi. Þetta er sem sagt arðvænlegt.
Stöðin að Húsatóftum spannar í senn seiðaeldi, sem er flókin nákvæmnisvinna, og framleiðslu á neyzlufiski, sem er mun einfaldari. Stofnkostnaður hvors þáttar um sig er um ein milljón króna, miðað við fullbúna stöð.
Slík stöð í fullum rekstri ætti að geta framleitt um 40 eða jafnvel 50 tonn af laxi á ári. Og geta þá þeir, sem kaupa sér lax í sunnudagsmatinn, reiknað út, hversu mikil velta, hversu mikil verðmæti, eru í húfi.
Hér er greinilega um að ræða spennandi atvinnugrein í landi, sem býr yfir nægum jarðhita og nægum bræðslufiski. Á þessu sviði ætti Ísland að vera samkeppnishæft, geta framleitt lax á ódýrari hátt en aðrir.
Þetta er auðvitað vitlegra en að framleiða hinar hefðbundnu landbúnaðarafurðir á kostnað ríkisins og gefa þær útlendingum á kostnað ríkisins. Þetta er kvikfjárrækt, sem er arðbær, af því að hún byggist á íslenzkum aðstæðum.
Ekkert er því til fyrirstöðu, að fleiri verðmætar fisktegundir séu ræktaðar á þennan hátt. Bretar gera til dæmis mikið af því að rækta flatfiska, sem sumir hverjir jafnast á við lax að verðmæti á markaði.
Stöðin að Húsatóftum er tilraunastöð, frumbýlingsbúskapur, þar sem enn er verið að leysa ýmis vandamál til viðbótar við vindkælinguna. Einkum eru það ráðstafanir til að hindra smitun og sýkingu seiðanna.
Nær væri að krossa Sigurð St. Helgason en embættismennina, sem fá orður fyrir að mæta í vinnunni. Og okkur er öllum hollt að vita, að ný atvinnugrein, kvikfjárrækt í iðnaðarstíl á fiski, er að fæðast að Húsatóftum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið