Drukkið í vinnunni

Greinar

Hér á landi hefur mótazt sú góða siðvenja, að fólk drekki ekki í vinnunni. Innleiðing bjórsins breytti þessu ekki, þótt ástæða væri til að óttast, að hún hvetti til dagdrykkju á svipaðan hátt og sjá má víða erlendis. Slíkar hrakspár hafa einfaldlega ekki rætzt.

Ein undantekning er á þessari góðu reglu. Í stjórnmálum hefur borið nokkuð á einstaklingum, sem fara ekki eftir þjóðarvenjunni. Í rituðum endurminningum kemur fram, að ýmsir stjórnmálamenn hafa vanmetið störf sín nógu mikið til að sinna þeim drukknir.

Áður en sjónvarp kom til sögunnar fylgdu þessu minni vandræði en verða nú. Að vísu gengu milli manna sögur um hneykslanlega hegðun stjórnmálamanna, en fólk hafði ekki beina reynslu af henni á borð við það sem nú má sjá í beinum útsendingum sjónvarpsstöðva.

Aukin nálægð kallar á, að stjórnmálamenn endurskoði viðhorf sín til drykkjuskapar við störf. Þeir þurfa að gæta þess að verða sér og þjóðinni ekki til skammar. Þeim ber að kalla frekar út varamenn, ef hætta er á, að þeir geti ekki sinnt skyldum sínum vegna ölæðis.

Málið verður erfiðara fyrir þá sök, að drykkjunni fylgir dómgreindarbrestur, sem veldur því, að menn telja sig færa í flestan sjó. Stærsta dæmið um það er byltingartilraun harðlínumanna í Sovétríkjunum, sem var framin í ölæði og fjaraði út í brennivínsdauða.

Stjórnmálamenn nota sennilega áfengi sem deyfilyf, af því að það er eina fíkniefnið, sem er löggilt. Þeim ætti þó að vera eins ljóst og öðrum, sem fylgjast með fréttum, að ekkert fíkniefni veldur jafn stórfelldum vandræðum og óhófleg áfengisneyzla gerir.

Þetta er meira vandamál hér á landi en í mörgum löndum, sem hafa lengra tímabil siðmenningar að baki. Stjórnmálamenn drekka víðar en á Íslandi, en þeir haga drykkju sinni á þann hátt, að ekki leiði til vanvirðu á opinberum vettvangi. Þeir geta strammað sig af.

Stundum er eins og stjórnmálamenn setji sig í spor starfsbræðra frá fyrri tíð, þegar almenningur hafði lakari aðstöðu til að fylgjast með daglegri hegðun stéttarinnar. Þetta sýnir dómgreindarskort, sem hugsanlega stafar einmitt af of mikilli, uppsafnaðri áfengisneyzlu.

Það er misskilningur, ef slíkir stjórnmálamenn halda, að þeir komizt upp með þetta. Fólk hefur þá þvert á móti í flimtingum. Það lítur ekki lengur upp til þeirra, heldur lítur niður á þá eins og hverja aðra skrípakarla, sem lauslega má flokka með skemmtilega greindum rónum.

Í nokkur ár hefur verið ástæða til að hafa áhyggjur af, að nokkrir stjórnmálamenn telji í lagi eða þolanlegt, að þeir komi fyrir almannasjónir á þann hátt, að gera megi ráð fyrir, að þeir séu ekki allsgáðir. En nú hefur greinilega keyrt um þverbak á þessu hættulega sviði.

Ein hættan er fordæmisgildið, sem þessi hegðun kann að hafa. Þótt meirihluti fólks líti niður á ölæðismenn á öllum þjóðfélagsstigum, eru alltaf einhverjir, sem þurfa afsökun til að auka drykkju sína eða færa hana yfir í vinnuna. Þeir kunna að vilja dansa eftir höfðinu.

Alvarlegri er þó virðingarbresturinn. Óhjákvæmilegt er, að venjulegt fólk fari að spyrja sig í vaxandi mæli, hvort ástand af þessu tagi sé algengt, hvort teknar séu mikilvægar ákvarðanir í slíku ástandi, og hvort slæma landsstjórn megi ef til vill skýra út frá fylliríi.

Áfengi er hættulegt fíkniefni, sem breytir persónu fólks, ef þess er neytt í nokkrum mæli. Valdamiklum stjórnmálamönnum ber að umgangast það með varúð.

Jónas Kristjánsson

DV