Robert Watson, sérfræðingur Alþjóðabankans í mengunarmálum, metur verðgildi mengunarréttar fyrir koltvísýring á 15-30 dollara tonnið. Það eru tölurnar, sem bankinn miðar við, þegar hann er að reyna að meta mengunarþátt stórverkefna, sem hann fjármagnar.
Mengunarskattur er á næsta leiti í Evrópu. Frakkland byrjaði að nota slíkan skatt í tilraunarskyni fyrir ári. Búizt er við, að staðfesting Kyoto-bókunarinnar um takmörkun á útblæstri koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda leiði til samevrópsks mengunarskatts.
Stórfyrirtæki eru byrjuð að búa sig undir skattinn, þar á meðal olíufélögin Shell og BP. Stjórnarformaður British Airways er formaður brezkrar nefndar af hálfu viðskiptalífsins, sem hefur mælt með mengunarskatti í Bretlandi. Menn hafa þegar sætt sig við hugmyndina.
Verðgildi mengunar með koltvísýringi er mikilvæg reikningseining, þegar ríki og fyrirtæki fara að verzla með réttinn til að menga. Flestir sérfróðir menn telja slíka verzlun með mengun gagnlega til að gera minnkun mengunar í heiminum sem hagkvæmasta í kostnaði.
Verðgildið ræðst auðvitað að lokum af framboði og eftirspurn. En nota má spátölur Alþjóðabankans til að verðleggja ýmis atriði, sem varða Ísland. Þannig er verðgildi íslenzka ákvæðisins í tengslum við Kyoto-bókunina frá 2,5 milljörðum upp í 5 milljarða króna á hverju ári.
Mengunarverð Reyðaráls eins verður samkvæmt tölum Alþjóðabankans 1-2 milljarðar króna á hverju ári. Það er skatturinn, sem Reyðarál þarf að bera, ef íslenzk stjórnvöld taka á sama hátt og aðrar ríkisstjórnir á Vesturlöndum á kostnaði við nýja mengun stórfyrirtækja.
Þótt Ísland fái ókeypis mengunarkvóta við frágang Kyoto-bókunarinnar, er ekkert, sem segir, að gefa eigi Reyðaráli þennan kvóta. Sjávarútvegurinn mun vafalaust telja sig standa nær slíkri fyrirgreiðslu ríkisvaldsins. Og bíleigendur telja sig þegar borga miklu meira.
Ísland verður fyrr eða síðar að leggja á mengunarskatta og leyfa verzlun með mengun eins og nágrannaríkin. Þar með verður fyrr eða síðar ekki komizt hjá því að skattleggja Reyðarál um 1-2 milljarða króna á ári, jafnvel þótt núverandi ríkisstjórn vilji gefa skattinn eftir.
Nauðsynlegt verður fyrir íslenzka lífeyrissjóði og aðra stórfjárfesta í Reyðaráli að gera sér grein fyrir, að fyrr eða síðar kemur þessi skattur á fyrirtækið. Engin pólitísk samstaða er í landinu um að veita þessu fyrirtæki mengunarlegan forgang fram yfir önnur fyrirtæki.
Á allra næstu árum munu Vesturlandabúar vakna til meðvitundar um vandræðin í tengslum við gróðurhúsalofttegundir. Öll vísindaleg rök hafa á síðustu misserum hneigzt að sömu niðurstöðu, sem segir okkur, að minnka verði mengun til mikilla muna á næstu árum.
Evrópskir og amerískir framleiðendur mengunar í álfyrirtækjum munu ekki sætta sig við til lengdar að keppa við dótturfyrirtæki Norsk Hydro á Íslandi, sem hafi þá samkeppnisaðstöðu umfram önnur slík fyrirtæki að þurfa ekki að borga mengunarskatt á koltvísýring.
Þeir, sem gæla við hugmyndir um fjárfestingu í Reyðaráli, þurfa að gera ráð fyrir, að fyrirtækið verði fyrr eða síðar að borga 1-2 milljarða króna á ári fyrir réttinn til að menga andrúmsloftið í heiminum. Umheimurinn setur annars innflutningsbann á afurðir verksmiðjunnar.
Hingað til hafa málsaðilar ekki reiknað með að þurfa að borga slíkar upphæðir. Þeir hafa verið að leika sér með óraunhæfar tölur um rekstrarkostnað Reyðaráls.
Jónas Kristjánsson
DV