Heimsborgin London, samsafn þorpa
Ljúfa London er ein örfárra miðpunkta mannkyns, heimsmiðstöð kaupsýslu og stjórnmála, — og sú þeirra, sem hefur einna mestan alþjóðabrag. Gangstéttir miðborgarinnar eru iðandi af allra þjóða fólki, mörgu frá fjarlægum heimshornum. Enda fjallar einmitt einn kafli þessarar bókar um ferðalag kringum jörðina á 30 veitingahúsum í London.
Fólk fer samt ekki bara í viðskiptaerindum til heimsborgarinnar. London er nefnilega engin venjuleg stórborg með ys og amstri. Hún er einnig róleg borg, þar sem gott er að hvílast. Hún er heimur ótal garða, stórra og smárra. Hún er þorp lágreistra húsa við mjóar og sveigðar götur.
Um leið er hún íhaldssöm borg gamalla hefða. Indælust er hún vegna íbúanna, sem kunna að umgangast náungann á siðmenntaðan hátt. Engir heimsborgarbúar eru jafn lausir við taugaveiklun og æðibunugang og heimamenn þessarar borgar. Þeir hafa t.d. nógan tíma til að leiðbeina ókunnugum.
London er sérkennilegt safn nokkurra smábæja, sem hver hefur sína persónu, sitt aðdráttarafl. Alveg eins og Westminster er annar heimur en City, er Covent Garden annar heimur en Soho. Í stað þess að kalla London alþjóðaborg, mætti alveg eins kalla hana safn alþjóðaþorpa.
Frístundalífið í London sogar einnig að sér fólk. Hún er heimsins mesta knattspyrnuborg og heimsins mesta leikhúsborg. Ölstofur hennar eru frægar. Kvikmyndahúsin bjóða allt hið nýjasta. Hún er höfuðborg popptónlistar og ein magnaðasta tízkuborg heims.
Frægar kirkjur og enn frægari söfn eru einn segull borgarinnar, sem annars státar ekki af eins merkilegri byggingalist og margar aðrar stórborgir. London er ekki falleg borg, en hún er notaleg borg, ágætur hvíldarstaður og skemmtistaður. En fyrst og fremst er hún ferðamanninum endalaus röð uppgötvana nýrra yndisefna.
Við byrjum á verzlunarferð.