Sú ferð, sem nýkomnir ættu að byrja á, er raunar engin gönguferð, heldur þægileg bátsferð um Grachten, síki borgarinnar. Þannig kynnumst við Amsterdam frá því sjónarhorni, sem áður fyrr var hið eðlilega. Við sjáum hana eins og siglandi gestir fyrri alda sáu hana.
Auk þess er bátsferð um síkin ágæt aðferð til að átta sig á lögun borgarinnar og afstöðu ýmissa merkisstaða, sem gaman væri að skoða nánar síðar á hestum postulanna. Við finnum líka, hvernig síkin liggja eins og skeifur, hver utan yfir aðra, og hvernig umferðargöturnar liggja eins og geislar út frá borgarmiðju, yfir hvert síkið á fætur öðru.