10. Córdoba – Alcázar

Borgarrölt
Alcázar, Córdoba

Alcázar

Alcázar

Rétt hjá moskunni er borgarkastalinn, Alcázar, frá 14. öld. Að baki hans eru márískir garðar, mishæðóttir með rennandi vatni, gosbrunnum og tjörnum. Þar er gott að rölta sér til hvíldar eftir skoðunargöngur um merkisstaði borgarinnar.

Judería

Flores, Córdoba

Judería, séð frá Calleje de las Flores til Mesquita

Calleje de las

Umhverfis moskuna er gyðingahverfi borgarinnar, Judería, með þröngum og kræklóttum göngugötum og pottablómum á húsveggjum. Við hefjum gönguna um það á horninu undir bænaturni moskunnar, þar sem eru veitingahúsið El Rojo Caballo og hótelið Maimónides.

Hótelið heitir eftir gyðingalækni, sem var fremstur lækna í heiminum á 12. öld. Annar frægur íbúi í Córdoba á þeirri öld var máríski vísindamaðurinn og heimspekingurinn Averroes. Á þeim tíma var Córdoba eitt helzta menningarsetur veraldar.

Leiðin liggur um sundið á horninu, síðan til hægri inn Deanes og svo til vinstri eftir Romero. Þar á torginu Salazar er matstaðurinn Churrasco. Á torginu snúum við til vinstri og göngum þröngt sundið til torgsins Maimónides. Þar er nautaatssafnið í herragarði að baki gróðursæls forgarðs.

Við göngum til hliðar við safnið, framhjá handíðamarkaðinum að baki safnsins og framhjá annarri af tveimur sínagógum gyðinga, sem eftir eru á Spáni, í 14. aldar húsi vinstra megin götunnar. Síðan finnum við aðra götukróka til baka.

Frá norðurhorni moskunnar förum við inn sundið Bosco og beygjum strax til hægri í Calleje de las Flores. Þar er sérstaklega mikið um pottablóm á veggjum. Frá torginu við enda sundsins er ágætt útsýni um sundið til baka til bænaturns moskunnar.

Næstu skref