10. Gamli miðbærinn – Rådhuspladsen

Borgarrölt

Síðan göngum við norður af torginu eftir stytztu götu borgarinnar, er ber hið virðulega nafn Keisaragata (Kejsergade).

Rådhuset, København

Rådhuset

Fyrst lítum við til hægri eftir Skinnaragötu (Skindergade) til að sjá fornlega götumynd, áður en við höldum götuna til vinstri. Hún liggur út að Gamlatorgi og síðan áfram undir nafninu Vesturgata (Vestergade) í mjúkum sveigjum alla leið að Ráðhústorgi (Rådhuspladsen). Hin virðulegu hús við Vesturgötu eru flest frá því um 1800.

Á torginu blasir ráðhúsið við til vinstri, frægt af myndum, en ekki að sama skapi stílhreint. Það var byggt 1892-1905 í svonefndum sögustíl, sem stældi endurreisnarstíl norðurítalskra borga og þótti mikið hneyksli á sínum tíma.

Höfuðprýði ráðhússins er raunar heimsklukka Jens Olsen innan við aðaldyrnar. Hún sýnir margs konar tíma og gang himintungla, einstæð í sinni röð í heiminum.

Næstu skref