10. Íslendingaslóðir – Árnasafn

Borgarrölt
Universitätsbiblioteket, København

Universitätsbiblioteket

Við göngum meðfram háskólanum til hægri Kristalsgötu og síðan til hægri Fjólustræti. Háskólabókasafnið er hér á hægri hönd og þar var Árnasafn til húsa við þröngan kost, frá því er það var flutt af lofti Þrenningarkirkju og unz það var flutt í Próvíanthúsið.

Hér sat Jón Helgason prófessor og orti: “Innan við múrvegginn átti ég löngum mitt sæti / utan við kvikaði borgin með gný sinn og læti”.

Við erum aftur komin að Frúarkirkju. Hér að baki hennar er Metropolitan-skólinn, sem áður hét Frúarskóli. Þar lærðu Hallgrímur Pétursson sálmaskáld, Grímur Thorkelín, síðar leyndarskjalavörður, og Sigurður Sigurðsson, síðar landþingsskrifari. Skúli Þ. Thorlacius var rektor skólans 1777-1803.

Kanuekstræde, København

Kanuekstræde. Hús Árna Magnússonar var þar sem hvíta húsið er núna

Hér beygjum við til vinstri inn Stóra Kanúkastræti og hægjum ferðina verulega, því að hér er íslenzk saga við hvert fótmál. Í götunni hefur íslenzka hljómað öldum saman, þegar námsmenn gengu milli garða og skóla.

Á fjarlægara horni Stóra og Litla Kanúkastrætis stóð áður hús Árna Magnússonar prófessors, Það er brann í hinum mikla Kaupmannahafnareldi í október 1728. Með húsinu brann hluti fornbókasafns hans, Árnasafns.

Andspænis húsi Árna er enn Borchs Kollegium, er var einn fínasti stúdentagarður borgarinnar. Þar voru umsjónarmenn Einar Guðmundsson og Skúli Thorlacius. Meðal annarra garðbúa voru Árni Magnússon, Jón Eiríksson, síðar konferensráð, Vilhjálmur Finsen, síðar landfógeti, og Konráð Gíslason, áður en hann flutti í Skinnaragötu.

Við hlið húss Árna var Londemanns hús, heitið eftir þeim Íslendingi, sem mest tignarheiti hefur borið í aðalsmannastíl, næst jarli og hirðstjórum Noregskonunga. Londemann var sonur Hans Londemann, sýslumanns Árnesinga, og Guðríðar Markúsdóttur. Hann varð prófessor, konsistorialráð, biskup og loks barón Rosencrone.

Við hlið Borchs Kollegium komum við næst að húsi Gjedde aðmíráls, þar sem Árni Magnússon var forstöðumaður garðbúa næstur á undan Ludvig Holberg leikritaskáldi. Hér bjuggu m.a. Finnur Jónsson og Hannes Finnsson, síðar biskupar, svo og Bjarni Thorarensen, er hér orti saknaðarljóðið Eldgamla Ísafold.

Næstu skref