10. Miðbær vestri – Piazza Navona

Borgarrölt

Piazza Navona

Við förum til baka meðfram kirkjunni og beygjum til hægri inn í Via della Pace og beint í framhaldi af henni eftir Via dei Lorensi inn á torgið Piazza Navona.

Rétt norðan við torgið, við Via Zanardelli 14, er veitingahúsið Passetto.

Torgið er í laginu eins og Circus Agonalis, íþrótta- og veðhlaupavöllur Dominitianusar keisara, sem var lagður hér á Campus Martius árið 86. Þá fóru hér fram frjálsar íþróttir og glíma, auk veðhlaupa. Constantinus keisari lét ræna marmara vallarins árið 356. Bardagasýningar riddara voru síðan háðar hér fram á 17. öld. 1477-1869 var grænmetismarkaður borgarinnar á torginu.

Nú er þetta einn helzti ferðamannastaður borgarinnar, enda er banni við bílaumferð framfylgt hér, þótt það sé ekki gert annars staðar í miðbænum. Hér sitja málarar og bjóða vegfarendum verk sín. Hér eru tvö þekkt kaffihús andspænis hvort öðru, Tre Scalini og Colombia. Hinu fyrra má ekki rugla saman við samnefnt veitingahús.

Á miðju torgi er hinn frægi Fjórfljótabrunnur í hlaðstíl frá 1651 eftir Bernini. Fjórar mannsmyndir, sem tákna höfuðfljótin Dóná, Níl, Ganges og Plate, eru í kringum helli, sem ber uppi rómverskan einsteinung frá tíma Dominitianusar.

Við enda torgsins eru Márabrunnur að sunnanverðu og Neptunusarbrunnur að norðanverðu. Við sunnanverða vesturhlið torgsins er Palazzo Pamphili, hönnuð af Rainaldi 1644.

S. Agnese & Fontana dei Fiumi, Roma

Sant’Agnese in Agone & Fontana dei Fiumi, Piazza Navona

Sant’Agnese in Agone

Fyrir miðju torgi er hlaðstílskirkjan Sant’Agnese in Agone, eitt þekktasta verk Borrominis, byggð að mestu 1652-1657. Hann gerði hvolfþakið og framhliðina, þar sem fram kemur blanda af ávölum og íhvolfum línum, en að öðru leyti er kirkjan meira hlaðin skrauti en hann hafði gert ráð fyrir. Kirkjan er einkar skrúðbúin að innanverðu.

Palazzo Madama

Frá miðju torgi, þar sem er kaffihúsið Colombia, göngum við eftir Calle Agonale til Corso del Rinascimento, þar sem Palazzo Madama gnæfir andspænis okkur, reist á 16. öld fyrir Medici-ættina og hýsir nú öldungadeild ítalska þingsins. Hin glæsilega framhlið, sem nýlega var gerð upp, er frá 1649.

Ef við förum vinstra megin meðfram höllinni, komum við að torgi, þar sem San Luigi dei Francesi er á vinstri hönd. Í kirkjunni, sem var byggð 1518-1589, eru málverk eftir Caravaggio og freskur eftir Domenichino.

Næstu skref