57th Street
57th Street er álíka fín verzlunargata og 5th Avenue. Þar eru kunnar tízkuverzlanir í röðum, þar á meðal áðurnefndar Bergdorf Goodman og Henri Bendel, svo og gjafavörubúðin Tiffany. En gatan er jafnfræg sem gata listmunasala. Tízkuverzlanirnar eru á jarðhæð húsanna, en listaverkasalirnir á efri hæðum.
Í næsta nágrenni horns 57th Street og 5th Avenue eru ýmis þekkt hótel og veitingahús.
Grand Army Plaza
Milli 58th og 59th Street er Grand Army Plaza, virðulegt torg með dýrum verzlunum og hótelum á alla vegu, svo og boðflennu General Motors hússins. Á miðju torginu er Pulitzer minningarbrunnurinn. Hér bíða hestvagnarnir eftir viðskiptavinum, sem vilja — eins og í Hollywood-bíómyndunum — fá sér ökutúr um Central Park
Museum Mile
Norðan við Grand Army Plaza tekur við Museum Mile. Það er sá hluti 5th Avenue, sem liggur meðfram Central Park. Þar eru söfnin í röðum, fyrst Frick Collection, síðan Metropolitan Museum, Guggenheim og Cooper-Hewitt. Aðeins innar er svo Whitney við Madison Avenue.