10. San Marco – Colleoni

Borgarrölt
Colleoni, Feneyjar

Colleoni

Við förum úr kirkjunni og göngum umhverfis hana, yfir brúna að baki hennar, beygjum síðan strax til hægri og göngum eftir Fondamenta Piovan og Calle larga Gallina að torginu fyrir framan San Zanipolo og Scuola di San Marco, þar sem er styttan af Colleoni, alls um 300 metra leið.

Riddarastyttan úr bronzi af Bartolomeo Colleoni sýnir vel k
raft og hreyfingu atvinnuhermanns og stríðsgæðings hans. Hún er eftir Andrea Verrocchio og er frá 1481-1488.

Colleoni var frægur 15. aldar hershöfðingi málaliða, sem Feneyingar tóku á leigu til landhernaðar, því að sjálfum hentaði þeim betur sjóhernaður. Þeir stigu betur ölduna en þeir sátu hestana. Colleoni gagnaðist þeim vel og græddu báðir aðilar á þeim viðskiptum.

Colleoni arfleiddi að lokum Feneyjalýðveldi að tíunda hluta auðæfa sinna gegn því, að stytta yrði reist af sér fyrir framan San Marco. Feneyingar játuðu þessu, en reistu hana ekki fyrir framan kirkjuna San Marco, heldur klúbbhúsið Scuola Grande di San Marco. Styttan hefur verið hér síðan og haldið minningu Colleoni á lofti, þótt ekki sé með sama hætti og hann sá fyrir sér.

Næstu skref