Úr norðausturenda götunnar komum við í suðurenda gamla miðbæjartorgsins.
Fagrar byggingar frá endurreisnartíma einkenna þetta langa og mjóa torg, sem hóf göngu sína sem Rómverjatorg, Forum, og hefur verið lifandi borgartorg í tuttugu aldir. Það er nú markaðstorg, þakið sólhlífum torgsala, umkringt listsýningarsölum, tízkuverzlunum og gangstéttarkaffihúsum, af sumum talið eitt fegursta borgartorg Ítalíu.
Á torginu miðju er gosbrunnur með rómverskri höggmynd, sem táknar verzlun, venjulega kölluð Madonna di Verona. Í norðurenda þess er súla frá 1528 með ljóni heilags Markúsar, tákni Feneyjaveldis.
Við norðurendann er Palazzo Maffei, hlaðstílshöll frá 1668, með tízkuverzlunum og lúxusíbúðum.