101 hótel

Veitingar

****
Austrænt ívaf

Barinn á 101 hóteli á horni Hverfisgötu og Ingólfsstrætis er leyndarmál veitingabransans. Þótt hótelið sé strax orðið heimsfrægt á vefnum, er enn hófleg aðsókn að barnum, sem býður tau í stað pappírs í munnþurrkum, merki um fullorðið veitingahús með burðugum matseðli, sem gælir þar á ofan við vestrænan og asískan blandstíl.

Hér er matur ódýr, aðalréttir á 2250 krónur að meðaltali og þríréttaður matur á 4140 krónur að meðaltali. Súpa og réttur dagsins í hádeginu kostaði 1290 krónur, mun lægri tölur en við mátti búast. Góð borðvín, einkum ítölsk og áströlsk, eru líka hóflega verðlögð, sum seld í glasatali.

Matreiðslan í glæsilegum borðsalnum er yfirleitt fín, með bragðsterku austrænu ívafi, mest indversku. Tær grænmetissúpa dagsins var milt pipruð og hefðbundin að bragði, en sterkari, fínni og betri var broddkúmenkrydduð sjávarréttasúpa með lax og lúðu, kókos og kóríander.

Súpan var indverskrar ættar, sem og bragðsterkur kjúklingur á teini ofan á kínverskum mung-baunum og salati með mintusósu í sérstökum bolla. Einnig bragðsterkt var tælenskt kryddsalat með silungi, selleríi, lime, chili og kóríander, svo og hrísgrjónum í afar sterkum sítrónusafa. Með þessu má fá indverskt flatbrauð með olífumauki.

Bakaður saltfiskur með ansjósum, kapers, sítrónu, hvítlauk og basilkrydduðu kartöflumauki, of lítið eldaður, eins og raunar víðar hér á landi. Athyglisvert er, að hér á landi er saltfiskur oft vaneldaður, en annar fiskur ofeldaður.

Koli dagsins kom í staðinn fyrir gellur. Fiskurinn var ekki nógu ferskur, en nákvæmlega rétt eldaður, borinn fram með selleríi, papriku og brúnni sósu. Pasta með miklu af smáum humri, miklu af plómutómati og parma osti var afar góður réttur.

Bezt var lambafillet, hæfilega rósrautt, vafið í japanska þangþynnu, borið fram með ostrusósu, tómati, gulrótum og rösti kartöflum, sem voru betri en á sumum nýklassísku stöðunum hér á landi.

Þetta er langur og mjór salur með hvítum veggjum og svörtum húsbúnaði, upprunalega húsasund, sem klætt hefur verið hallandi glerþaki og gert nútímalega smart, kalt og reglustrikað.

Annars vegar er röð tveggja manna borða og hinum megin langt og mjótt barborð, samtals 20 sæti á hvorum stað. Aftan við barborðið er hvítur veggur Óperunnar með risastórum hálfkúlum og aftan við hin borðin er umfangsmikill spegill, sem nær upp í loft og breikkar staðinn.

Jónas Kristjánsson

DV