101-menn ræða úthverfinga

Greinar

Einn þekktasti rithöfundur skrifaði nýlega í bók, að hverfi 101 sé sá hluti borgarinnar, sem máli skipti. Úthverfin séu bara Ameríka. Hann dásamar 101 í greininni og má það allt satt og gott vera. Að minnsta kosti hafa arkitektar landsins ekki fengið að leika þar lausum hala á skipulegan hátt.

Lýsing rithöfundarins á örlögum úthverfinga er harmþrungin. Þar sé engin list og engin sál. Blokkirnar hafi alltaf verið sálarlausar og séu það enn. Þjakaðir af sálarleysi fari úthverfingar niður í bæ að drekka bjór og syngja og láti síðan skutla sér upp í heiðargötur með ömurlegum nöfnum.

Það er útbreidd skoðun bíllausra íbúa í 101, að öllum hljóti að líða illa, sem hafi annan lífsstíl en þeirra, sérstaklega ef þeir fari allra sinna ferða á einkabíl. Þeir hljóti að vera sálarlausir, líkir Bandaríkjamönnum, án alls þess, sem evrópskar kúltúrborgir hafi að bjóða, þar með hverfi 101.

Lýsingin passar ekki nema að hluta við raunveruleikann. Margir úthverfingar fara að vísu aldrei í strætó og ætla ekki að gera það. Margir eru önnum kafnir við að keyra sig í vinnu og börnin milli uppeldisstofnana. Þeir eru raunar líka margir, sem ekki koma einu sinni í 101 til að fá sér bjór.

Engin sálgreining eða félagsgreining hefur sýnt fram á, að úthverfingar séu verr staddir í sálarlífinu eða félagslífinu en menningarvitarnir í 101. Þetta eru bara fullyrðingar, sem málsvarar 101 nota í tíma og ótíma, án þess að þær verði neitt réttari fyrir bragðið. Úthverfingum líður samt vel.

Fólk kemst bærilega af í úthverfunum án prozaks fyrir sig og rítalíns fyrir börnin. Fólk kemst bærilega af, þótt það fari ekki í strætó. Það kemst bærilega af, þótt það búi við götu með hjákátlegu nafni. Það kemst bærilega af, þótt það komi aldrei í kaffihús eða bjórstofu eða yfirleitt í hverfi 101.

Evrópskar borgarmiðjur hafa sína kosti umfram bandarískar borgarmiðjur, en bandarísk úthverfi hafa líka sína kosti umfram evrópsk úthverfi. Ein tegund búsetu hentar öðrum og önnur tegund hentar hinum. Það er ekki hægt að alhæfa um úthverfinga út frá eindreginni ást í garð hverfis 101.

Menningarvitar mega lofa evrópska borgarmiðju Reykjavíkur í hástert, en eru á hálari ís, þegar þeir telja mikinn harm steðja að öllum þeim, sem hafa og vilja annars konar búsetu.

DV