11. Canal Grande – Ca’ Rezzonico

Borgarrölt

Palazzo Moro Lin

Nokkurn veginn andspænis háskólanum er afar breið höll.

Palazzo Moro Lin er 17. aldar breiðsíðuhöll, sem stundum er kölluð þrettán glugga höllin, af því að gluggarnir eru þrettán á hverri hæð.

Palazzo Grassi

Nánast við hlið hennar er mikilúðleg höll.

Hin þunga, hvíta Palazzo Grassi var reist 1730 í endurvaktri útgáfu af endurreisnarstíl.

Hún er núna notuð fyrir listsýningar, sumar hverjar afar athyglisverðar.

Ca’ Rezzonico

Ca Rezzonico, Feneyjar

Ca’ Rezzonico

Andspænis henni á hinum bakkanum er sögufræg höll, Ca’ Rezzonico við hlið samnefndrar bátastöðvar.

Afar skrauthlaðin og formföst framsíða ber vott um hlaðstíl arkitektsins Baldassare Longhena, sem reisti hana á síðari hluta 17. aldar.

Höllin er ekki síður skarti búin að innanverðu, þétt skipuð málverkum, veggmyndum og forngripum. Danssalurinn liggur eftir endilangri annarri hæðinni, með gylltum ljósakrónum og þrívíddarmálverkum í lofti, svo og útskornum húsbúnaði. Nokkur stofuloft eru með veggfreskum eftir Giambattista Tiepolo.

Höllin er núna minjasafn um Feneyjar 18. aldar. Þar eru meðal annars málverk eftir Pietro Longhi, Francesco Guardi, Canaletto og Giandomenico Tiepolo.

Palazzo Loredan dell’Ambasciatire

Örlitlu ofar, sömu megin, er önnur athyglisverð höll, Palazzo Loredan dell’Ambasciatire.

Palazzo Loredan dell'Ambasciatire, Feneyjar

Palazzo Loredan dell’Ambasciatire

Síðgotnesk höll með ívafi endurreisnarstíls, sendiráð austurrísk-ungverska keisaradæmisins um langt skeið.

Næstu skref