11. Danmörk – Árósar

Borgarrölt
Århus: Den gamle By, Jylland

Århus: Den gamle By

Eftir morgungönguna ættum við að leggja í hann ekki síðar en um tíuleytið í 80 km ferð til Árósa. Fyrst förum við frá ströndinni, leitum að vegvísi til Horsens og Árósa, förum á nýju og háu brúnni yfir fjörðinn og fylgjum A10 alla leið til Árósa, næststærstu borgar Danmerkur.

Árósar

Við finnum höfnina í Århus og ökum þaðan suður Spanien og Strandvejen, þar sem við finnum brátt við hafið næsta hótel okkar, Marselis, Strandvejen 25, sími (06) 14 44 11. Þar hendum við inn farangrinum og pöntum borð fyrir hádegissnarl og kvöldverð í veitingahúsum inni í bæ.

Grauballe-manden, Moesgård museum, Århus, Jylland

Grauballe-manden, Moesgård museum

Nú dugar ekkert dosk. Við höldum áfram Strandvejen framhjá tjaldstæðinu og fylgjum vegvísunum til Moesgård safns. Það er fornleifa- og þjóðfræðisafn í skóginum og sérhæfir sig í forsögu Danmerkur. Þar er til dæmis hinn heimsfrægi og vel varðveitti Grauballe-maður, sem lítur út eins og honum hafi verið fórnað guðunum fyrir nokkrum mánuðum. Hann er 1600 ára gamall, óhugnanlegri en nokkuð í safni Madame Tussauds.

Á bakaleiðinni förum við framhjá hótelinu og finnum í miðborginni Café Mahler, Vestergade 39, þar sem matur er ekki dýr, miðað við, hversu óvenjulega góður hann er. Við látum okkur dveljast yfir kaffinu, áður en við röltum skamman veg yfir Vesterbrotorv og Vesterbrogade yfir í Den gamle by.

Þessi gamli bær er eins konar Árbær, útisafn 60 gamalla húsa, sem hafa verið flutt hingað og endurreist. Þau eru fullbúin með innréttingum, sem sýna okkur hagkerfi liðins tíma, byggingarlist, lifnaðarhætti, viðskipti og handiðnir.

Athyglisverðast er borgarstjórahúsið frá 1597 við aðaltorgið. Mörg húsin eru skemmtileg að innanverðu, til dæmis verkstæði úrsmiðsins, brugghúsið og apótekið, fullt af skrítnum krukkum og lyfjagerðaráhöldum.

Þetta er slökunarmiðstöð Árósa, full af fólki um helgar. Den gamle by er í senn forn draumur og nýtt tivoli, þar sem mikið er um að vera á frídögum. Við hliðina er grasgarður borgarinnar, kjörinn til körfumáltíða í góðu veðri.

Af öðru skoðunarverðu í Árósum má nefna náttúruminjasafnið í háskólagarðinum, þekkt fyrir sýningar á upphafi og þróun lífs á jörðinni. Ennfremur dómkirkjan, stofnuð 1201, helguð Sankt Clemens. Hún var upprunalega rómönsk múrsteinskirkja, sem var síðan lagfærð og stækkuð á 15. öld í gotneskum stíl. Hún er lengsta kirkja Danmerkur.

Næstu skref