11. Dublin – General Post Office

Borgarrölt
General Post Office, Dublin

General Post Office

O’Connell Street

Við förum yfir brúna, beygjum til hægri eftir árbakkanum Bachelors Walk tæpra 300 metra leið og síðan til vinstri inn í O’Connell Street, helztu breiðgötu borgarinnar.

Breiðar gangstéttir og breið eyja veita trjám og höggmyndum og vegfarendum skjól fyrir stríðri bílaumferð. Einu sinni var þetta helzta rúntgata miðbæjarins, en fyrir löngu orðið að víkja fyrir göngugötunni Grafton Street. Enn eru hér kvikmyndahús og skyndibitastaðir.

General Post Office

Við göngum tæpa 200 metra inn O’Connell Street, þar sem fyrir okkur verður mikil höll á vinstri hönd.

Aðalpósthús borgarinnar er í mikilli höll frá 1814 við vesturhlið O’Connell Street og snýr miklu og jónísku súlnariði að götunni.

Frægust er hún fyrir hlutverkið í páskauppreisninni 1916. Lýðveldisyfirlýsingin var lesin upp af tröppum hennar. Hún var þá höfuðstöð uppreisnarmanna og varð fyrir skothríð brezkra hermanna. Hún ber enn ör frá þeim tíma, þótt að mestu hafi verið gert við skemmdirnar.

Næstu skref