Arco di Constantino
Við höldum til baka niður að Titusarboga og förum Via Sacra meðfram nokkrum súlum úr musteri Venusar og Rómar, sem reist var á vegum Hadrianusar 121-136, í átt til sigurboga Constantinusar og hringleikahússins Colosseum. Á þessum slóðum var inngangurinn í gullhöll Neros.
Sigurboginn var reistur 315 til minningar um sigur Constantinusar yfir keppinauti sínum, Maxentiusi, mjög vel hannaður og mikið skreyttur lágmyndum. Sumum hinum beztu þeirra hafði verið rænt af eldri minnismerkjum Trajanusar, Hadrianusar og Aureliusar frá upphafi 2. aldar.
Þá þegar var hafinn sá langi tími í sögu Rómar, að ný og lakari minnismerki voru reist með því að spilla þeim betri, sem fyrir voru. Kirkjunnar menn voru mikilvirkastir í þeim spellvirkjum og hefur það til dæmis komið feiknarlega hart niður á Colosseum.