11. Gamli miðbærinn – Vor Frues Kirke

Borgarrölt
Jarmers Plads, København 2

Jarmers Plads

Eftir að hafa virt fyrir okkur hinn samfellda straum fólks og bíla um þetta önnum kafna torg, höldum við í átt frá ráðhúsinu eftir Vesturvegg (Vester Voldgade) yfir Stúdíustræti (Studiestræde) að Jarmerstorgi.
Þar á miðju torgi má sjá leifar turns frá 1528 úr hinum gamla borgarmúr, er lá, þar sem nú er Vesturveggur, Norðurveggur (Nørrevoldgade) og Austurveggur (Øster Voldgade).

Bispegården, Univeristet & Vor Frues Kirke, København

Frá vinstri Bispegården, Univeristet & Vor Frues Kirke

Við förum Vesturvegg til baka að Stúdíustræti og beygjum þar til vinstri. Þar hefur fornbókaverzlunum fækkað, en þó má enn sjá bókakassa úti á stétt. Ef við getum stillt okkur um að eyða tíma í að róta í kössunum, erum við von bráðar komin yfir Larsbjörnsstræti út á Norðurgötu (Nørregade), þar sem við beygjum til vinstri.

Hér á horninu er Biskupsgarður, sem einu sinni var ráðhús Kaupmannahafnar. Handan götunnar rís hin kuldalega Frúarkirkja (Vor Frue Kirke), dómkirkja borgarinnar, endurreist 1811-29 eftir fallstykkjahríð brezka flotans 1807. Kirkjan er kunnust fyrir listaverk Thorvaldsens innan dyra.

Við sjáum háskóla Kaupmannahafnar snúa framhlið að stjórnborða kirkjunnar handan Norðurgötu. En hérna megin götunnar er “brunahús” frá 1728 á nr. 13. Og á horni Norðurgötu og Pétursgötu (Sankt Petersgade) sjáum við elztu kirkju borgarinnar, Sankti Péturskirkju. Hennar er fyrst getið í heimildum 1304. Hún hefur margsinnis verið endurreist eftir bruna.

Næstu skref