11. Írland – Dunluce

Borgarrölt
Dunluce Castle, Norður-Írland

Dunluce Castle

Dunluce

Við höldum áfram A2 stutta leið að Bushmill. Í þessum enda þorpsins er sögufræg krá, þar sem við gistum, Bushmill’s Inn.

Frá þorpinu förum við áfram A2 og komum fljótlega að kastalarústum.

Dunluce Castle ber drungalegan svip draugaborgar á 30 metra háum klettahöfða, sem stendur út í sjó. Elztu hlutar kastalans, austurturnarnir og suðurveggurinn, eru frá 14. öld, en annað að mestu frá 16. öld. Árið 1639 hrundi eldhúsið með manni og mús niður í sjó og lagðist kastalinn við það í eyði. Aðgangur £0,75.

Derry

Enn höldum við áfram A2 til borgarinnar Derry, öðru nafni Londonderry og ökum inn í gömlu borgarmiðjuna innan borgarmúranna.

Borgarmúrinn frá 1613-1618 er helzta stolt Derry, upphaflega með fjórum borgarhliðum, sem nú eru orðin sjö alls. Þetta er bezta dæmi Írlands um borgarmúr, sem haldizt hefur svo heillegur til nútímans að ganga má hringinn eftir honum. Svæðið innan múranna er 500 metrar á langveginn og 250 metrar á þverveginn. Í miðjunni er torgið Diagonal. Þaðan liggur gatan Bishop’s Street Within til suðurs til dómkirkjunnar St Columb’s, frá 1628-1634, fyrstu dómkirkju, sem reist var á Bretlandseyjum eftir siðaskipti, í gotneskum stíl. Til norðurs frá torginu liggur verzlunargatan Shipquay Street, afar brött.

Malin Head

Við getum farið héðan í 160 km hringferð um fjalllendi Inishowen-skaga. Þá förum við úr Derry eftir R238 um Moville, Carndonagh og Malin Head og til baka sama veg um Carndonagh, Ballyliffin og Buncrana. Við komum þá inn á N13 rétt áður en komið er að Grianan of Aileach, sem lýst er í næsta kafla.

Milli Moville og Carndonagh komum við fyrst að afleggjara til vinstri að tveimur hákrossum og krossaðri grafhellu við Carrowmore og skömmu síðar til hægri að Clonca kirkjurúst og hákrossi. Malin Head er lítið fiskiþorp í skjóli sjávarhamra. Á bakaleiðinni er hákross frá 8. öld rétt handan Carndonagh og krossuð grafhella frá 7. öld í kirkjugarði þorpsins Fahan.

Krossaðar grafhellur eru frá 7.-12. öld, flöt og óregluleg steinbjörg, höggvin krossum, öðrum helgitáknum og áletrunum á latínu, lögð yfir grafir manna.

Næstu skref