Loks komum við vinstra megin að merkasta húsi götunnar, Garði, sem öldum saman hýsti mikinn meirihluta íslenzkra námsmanna í Kaupmannahöfn. Hér fengu þeir forgangsvist samkvæmt konungsúrskurði, alveg eins og þeir höfðu forgangsfæði í Klaustri.
Danir kvörtuðu stundum sáran um, að íslenzkir ríkismannasynir og Íslendingar án nokkurra prófa og hæfnisvottorða voru orðalaust teknir fram yfir Dani, sem ekki komust yfir þröskuldinn í vali úr stórum hópi umsækjenda. Og það er merkilegt rannsóknarefni, að konungur lét þetta kíf jafnan sem vind um eyru þjóta.
Með forgangi Íslendinga að Klaustri og Garði var auðvitað stuðlað á einkar virkan hátt að menntun Íslendinga á erfiðum öldum. Mjög er óvíst, að forfeður okkar hefðu getað tekið íslenzk mál í eigin hendur, ef forréttindin í Kaupmannahöfn hefðu ekki undirbúið jarðveginn og haldið honum við. Þetta gleymdist stundum í Danahatrinu.
Skrár Garðs sýna mikil afföll Íslendinga. Margir þeirra lágu í svalli og spilum meðan hinir dönsku félagar lágu yfir bókum. Ófagrar eru lýsingar á hinni illræmdu þrenningu Ögmundar Sívertsen, Högna Einarssonar og Torfa Eggerz, svo og á Magnúsi og Gunnlaugi Blöndal um miðja síðustu öld, púlsmönnum “hjá B
acchi og Veneri”.
Íslendingar bjuggu mikið út af fyrir sig á sjötta stigagangi á Garði, blönduðu lítt geði við Dani og tróðu frekar illsakir við þá. Klemenz Jónsson, síðar landritari, var þó kosinn prófastur Garðbúa með atkvæðum róttækra Dana. Hannes Hafstein, Skúli Thoroddsen, Indriði Einarsson og Björn Olsen nutu líka álits inn í raðir Dana.
Héðan af Garði kemur endalaus röð forustumanna Íslendinga. Á 17. öld menn eins og Brynjólfur biskup Sveinsson, Vísi-Gísli lögmaður, Árni prófessor Magnússon og Þormóður kvennamaður Torfason. Á 18. öld menn á borð við Skúla fógeta, Eggert Ólafsson og Magnús Stephensen.
Hinum þekktu nöfnum Íslendinga meðal Garðbúa fjölgar á 19. öld. Þá búa þar Jón Sigurðsson, Tómas Sæmundsson, Brynjólfur Pétursson, Konráð Gíslason, Páll Melsteð, Skúli Thoroddsen, Hannes Hafstein, Grímur Thomsen, Steingrímur Thorsteinsson, Gestur Pálsson og Þorsteinn Erlingsson.
Hins vegar hafa mjög fáir forustumenn 20. aldar átt hér viðdvöl. Og vorið 1981 var svo komið, að ekkert íslenzkulegt nafn var lengur að finna í garðverjaskrá portsins. Hér verður því ekki lengur neinn “Rúki” prófastur (Eiríkur Jónsson) til að láta söng og ærsl, kvennafar og svall, fara í taugar sér, svo sem hann gerði á síðasta aldarfjórðungi síðustu aldar.
Við verðum að lokum að slíta okkur frá þessari þungamiðju sögu Íslendinga í Kaupmannahöfn. Framundan, handan Kjötmangarans, er Sívaliturn, þaðan sem gengið var inn á loft Þrenningarkirkju, en þar var Árnasafn lengi. Þar “sat á turni” Jón Grunnvíkingur. Og fyrir utan turn er talið, að 60-70 Íslendingar séu grafnir í kirkjugarði, sem nú er orðinn stétt.