Neðan við þetta svæði er Palau Naçional, sem stendur virðulega frammi á fjallsbrún. Þessi mikla höll var reist vegna heimssýningarinnar í Barcelona árið 1929. Þar er til húsa eitt stærsta safn miðaldalistar í heiminum, Museu d’Art de Catalunya. Í brekkunum austan við höllina eru fornminjasafnið, Museu Arqueològic og þjóðfræðisafnið, Museu Etnològic.
Poble Espanyol
Í brekkunum vestan við höllina er eins konar Árbær, Poble Espanyol. Þar hafa verið reistar nákvæmar eftirlíkingar af spönskum húsum, raðað saman eftir landshlutum. Þar má til dæmis finna Katalúníuhverfi, Kastilíuhverfi og Andalúsíuhverfi. Í húsunum eru verzlanir, listiðnaðarverkstæði og veitingastofur. Á kvöldin eru oft ýmsar sýningar, til dæmis dansar, svo og tónleikar og kvöldvökur.
Frá Palau Naçional liggja voldugar tröppur niður brekkuna, inn á milli sýningarhalla kaupstefnunnar í Barcelona, og niður á Spánartorg, Plaça d’Espanya. Þar er gaman að snúa sér við og virða fyrir sér mikilúðlegt útsýnið upp til Palau Naçional.