12. Danmörk – Kalundborg

Borgarrölt
Kalundborg kirke, Jylland

Kalundborg kirke

Næsta morgun förum við snemma á fætur til að ná 8-ferjunni frá höfninni til Kalundborg á Sjálandi. Við getum sleppt morgunverði á hótelinu, af því að við getum snætt hann í þriggja tíma rólegheitum um borð í ferjunni. Ef við eigum bókað, nægir okkur að leggja af stað frá hótelinu 7:30.

Sjáland

Þegar við erum komin í land í Kalundborg, ökum við beint upp hæðina að kirkjunni, þar sem við leggjum bílnum í Adelgade og virðum fyrir okkur gömlu húsin og kirkjuna við torgið. Kirkjan er býzönsk, reist 1170 í mynd fimm turna, sem hafa grískan kross að grunnplani. Þessi kirkja er byggingarlistalega séð einstök í sinni röð í Danmörku.

Trelleborg, Sjælland

Trelleborg

Á leiðinni úr bænum til Slagelse sýnir vegvísir leiðina til hægri, 4 km til hallarinnar Lerchenborg. Það er hlaðstíls-höll frá 1743-53 í stórum garði 20.000 rósa og fleiri blóma og trjáa.

Við höldum aftur út á aðalveginn og ökum áfram 38 km til Slagelse. Þegar þangað er komið, finnum við Korsör-veginn frá bæjarmiðju og skyggnumst um eftir vegvísi til hægri að Trelleborg. Þangað er 5 km krókur að afar undarlegu víkingavirki frá 1000-50.

Trelleborg er síki og aðalvirki, umlukt háum, hringlaga vegg. Á veggnum eru fjögur hlið, sem snúa til höfuðáttanna. Inni í virkinu eru minjar um sextán hús, reist eftir ströngu, flatarmálsfræðilegu mynztri. Fyrir utan hefur verið reist eftirlíking eins þessara húsa.

Ef menn telja víkinga ekki hafa orðið fyrir áhrifum rómverskrar verkfræði og nákvæmni, geta þeir skipt um skoðun hér. Eini munurinn er, að hin rómversku castra voru rétthyrnd, en Trelleborg er hringlaga.

Næstu skref