Við förum yfir Norðurgötu og lítum inn í háskólaportið. Þar inni ríkir miðaldaró aðeins steinsnar frá nútímanum. Og þar er konsistoríið, einu leifar hins kaþólska biskupsseturs miðaldanna. Í kjallara þess hvíla sex hvelfingar í rómönskum stíl á granítsúlum.
Úr portinu beygjum við til hægri og göngum meðfram byggingum háskólans. Hér við Norðurgötu var Kannibalen, mötuneyti stúdenta. Nafnið bendir til, að þar hafi matur ekki verið góður. Við beygjum síðan enn til hægri fyrir háskólahornið og göngum Kristalsgötu (Krystalgade) framhjá vöruhúsi Daells að Fjólustræti (Fiolstræde), einni af göngugötum borgarinnar.
Á horninu er útsýni eftir Kristalsgötu til Sívalaturns, sem við munum skoða nánar síðar. Fyrst beygjum við krók til vinstri eftir Fjólustræti og þræðum milli torgsölutjaldanna til að grúska um stund í fornbókaverzlunum götunnar, en snúum síðan til baka suður götuna.
Við tökum eftir fallegu, gömlu bindingshúsi á horni Fjólustrætis og Kristalsgötu og göngum framhjá háskólabókhlöðunni á hægri hlið, unz við komum aftur að Frúarkirkju, en í þetta sinn aftan að henni.
Við nemum staðar til að virða fyrir okkur kirkjuna og háskólann frá nýju sjónarhorni, áður en við beygjum til vinstri inn Stóra Kanúkastræti (Store Kannikestræde), götu stúdentagarðanna. Við erum hér í hjarta Latínuhverfisins, í götunni, sem stúdentar gengu löngum milli Garðs og skóla.
Við þessa götu hafa flest hús áratugum og öldum saman verið beint eða óbeint tengd stúdentum og starfi háskólans. Hér eru frægir stúdentagarðar á báðar hendur, Borchs Kollegium á nr. 12, Ehlers Kollegium á nr. 9 og Admiral Gjeddes Gård á nr. 10. Við lítum andartak inn í friðsælan garð Borchs Kollegium til að fá snertingu við gamlan tíma.