12. Íslendingaslóðir – Strikið

Borgarrölt
Skarv, bar, København

Skarv

Íslendingar virðast hafa meiri sögulega tilfinningu fyrir tungumáli en Danir. Þeir mundu, að mötuneytið hafði einu sinni verið í klaustri. Og þeir mundu, að Købmagergade var einu sinni nefnt eftir slátrurum, en ekki kaupmönnum, og notuðu því yfirleitt hið rétta orð, Kjötmangarinn.

Við göngum hér til hægri Kjötmangarann niður á Strik og það síðan út á Kóngsins Nýjatorg. Við erum hér á Rúnti íslenzkra hafnarstúdenta. Á horni Kjötmangarans og Skinnaragötu voru krárnar Himnaríki  (Himmerige) og Helvíti (Café d´Enfer), mikið sóttar af Íslendingum. Síðast er um Himnaríki í frásögur fært, að þar sátu Halldór Laxness og Jón prófessor Helgason og gerðu úttekt á Þórbergi Þórðarsyni.

Ef við tökum hér krók til vinstri út í Gömlumynt og Grænugötu, erum við komin á æskuslóðir Bertels Thorvaldsen, er bjó á ósamlyndu og ömurlegu heimili drykkfellds föður í Grænugötu 7, í einu versta skuggahverfi borgarinnar. Frá Gottskálki föður hefur Bertel þó væntanlega fengið handbragðið, sem síðan þróaðist í átt til heimsfrægðar.

Hér liggur Pílustræti samhliða Kjötmangaranum. Þar er kráin Skarfurinn, sem fyrir nokkrum árum var einn helzti skemmtistaður Íslendinga, og deildu þeir honum með Grænlendingum.

Fæðingarstaður Jörundar hundadagakonungs, København

Fæðingarstaður Jörundar hundadagakonungs

Þegar við komum niður á Strik, skulum við taka eftir húsinu Austurgötu 6, þar sem er Den Københavnske Bank. Þar fæddist Jörundur hundadagakonungur, sonur Urbans úrsmiðs og Önnu Leth, sem hvatti H. C. Andersen til dáða. Skólabróðir Jörundar, Adam Øhlenschläger, getur þess, að þá þegar hafi hann verið duglegur við strákapörin.

Á þessum fínu slóðum bjó líka áðurnefndur Repp. Hér var og fullt af krám og veitingahúsum, sem nú eru horfin, en voru vinsælir áningarstaðir á kvöldgöngum Íslendinga fyrri alda. Á Amákurtorgi 4 var Blesi (Pleisch), þar sem nú er Bing & Grøndahl. Pétur drengur (Pedrin) var í Austurgötu.

Og svo getum við líka gengið fyrir hornið og byrjað nýja hringferð á Njáli, Hvít og Mjóna

Næstu skref