12. Miðbær eystri – Piazza Republica

Borgarrölt
Fontana delle Naiadi & Terme di Diocleziano, Roma

Fontana delle Naiadi & Terme di Diocleziano

Piazza Republica

Frá horninu förum við suðaustur eftir Via delle Quattro Fontane og síðan til vinstri eftir Via Nazionale að Piazza della Republica, sem oft er kallað Piazza Esedra, af því að það er í laginu eins og hálfhringur, hannað 1870. Á miðju torginu er brunnur, Fontana delle Naiadi, af fjórum berum stúlkum að berjast við sæskrímsli, og þótti brunnurinn dónalegur um aldamótin, þegar hann var reistur.

Terme di Diocleziano

Handan torgsins eru rústir baðhallar Diokletianusar keisara, sem var stærsta baðhöll fornaldar í Róm, 13 hektarar að flatarmáli og gat tekið 3000 baðgesti í einu, reist 295-305. Í baðhöllinni voru mismunandi heit böð eins og lýst er í kaflanum um Caracalla-baðhöllina, bókasöfn, tónleikasalir, garðar og sýningarsalir.

Böðin féllu úr notkun 538, þegar vatnsriðin til borgarinnar voru eyðilögð í upplausn þjóðflutningatímans. Eftir stendur nokkur hluti af innsta kjarnanum, þar sem var kaldi og volgi baðsalurinn, svo og innri sveigveggur heita baðsalarins, sem snýr að torginu.

Kaldi og volgi baðsalurinn varðveittust að nokkru, af því að þeim var breytt í kirkjuna Santa Maria degli Angeli. Michelangelo var falið að hanna kirkjuna 1561. Hann notaði veggi og form baðhallarinnar til að hanna krosskirkju, þar sem mest ber á þverskipinu. Í því er mikið safn málverka frá 18. öld.

Museo Nazionale Romano

Við förum til vinstri úr kirkjunni, göngum meðfram rústum baðhallarinnar fyrir hornið að inngangi í fornminjasafn, sem hefur verið innréttað í afganginum af rústum hallarinnar. Það er Museo Nazionale Romano, eitt merkasta safn grískra og rómverskra muna, sem til er.

Í safninu er hin gríska frummynd Ludovisi-hásætisins; fræg stytta af Augustusi keisara í klerkaskikkju; Venus frá Cyrene; kringlukastarinn og ótal mörg fleiri verk, sem prýða listasögubækur.

Stazione Termini

Úr safninu förum við yfir Piazza del Cinquecento. Handan við það er aðaljárnbrautarstöðin með stórum glerveggjum undir risavöxnu bylgjuþaki, gott dæmi um byggingarlist nútímans, reist 1951. Við torgið eru líka stöðvar strætisvagna og áætlunarbíla, sem fara út um borgina og út úr henni, þar á meðal til flugvalla Rómar.

Nálægt torginu, við Via Massimo d’Azeglio 3f, er veitingahúsið La Taverna.

Næstu skref
Stazione Termini, Roma

Stazione Termini