12. Miðbær vestri – Pantheon

Borgarrölt

Pantheon, Roma 2

Pantheon

Síðan höldum við til vinstri eftir Via Sant’Eustachio og til hægri eftir Salita di Crescenzi inn á Piazza della Rotonda.

Hér erum við komin að bezt varðveittu fornbyggingu Rómar, hofið Pantheon, með frægu hringhvolfi frá 119-128, reistu á vegum Hadrianusar keisara á rústum fyrra hofs, sem Marcus Agrippa lét reisa 27 f.Kr. Það hefur staðið af sér allar hremmingar í nærri nítján aldir.

Upphaflega voru utan á hringhvolfinu bronzflögur, Pantheon, Romasem Constantinus keisari lét ræna 356 og flytja til Miklagarðs. Ennfremur voru í anddyrinu bronzplötur, sem páfinn Urban VIII af Barberini-ætt lét ræna 1624 til að steypa hásætishiminn Péturskirkju. Þá sagði hinn frægi Pasquino: Quod non fecerunt Barbari, fecerunt Barberini (Það sem barbarar gerðu ekki, það gerðu Barberinar) Að öðru leyti varðveittist hofið, vegna þess að því var breytt í kristna kirkju.

Framhlið Pantheons er eins og hefðbundið grískt hof með miklu, tvöföldu súlnaporti undir gaflaðsþríhyrningi. Súlurnar sextán eru einsteinungar úr graníti. Inn í sjálfa hringkirkjuna er gengið um voldugar bronsdyr, sem eru upprunalegar.

Hringkirkjan er 43,30 metrar í þvermál og jafnmargir metrar á hæð. Hvolfið, sem er breiðara en hvolf Péturskirkju, var einstætt verkfræðiafrek á sínum tíma, fegursti minnisvarði þeirrar tækni Rómverja að leiða burðarþol um hvolf niður í veggi og súlur. Efst uppi er tveggja metra, hringlaga op, sem hleypir inn ljósstaf sólar.

Neðst skiptast á súlnarið framan við kapellur, sem eru til skiptis hálfhringlaga og kantaðar; og veggfletir með helgiskrínum, þar sem skiptast á bogadregin gaflöð og þríhyrnd. Þessi form úr Pantheon voru síðan stæld endalaust, einkum á tíma endurreisnarstíls.

Útliti hæðarinnar ofan súlnanna var breytt á 18. öld. Yfir þriðju kapellunni hægra megin hefur þessu aftur verið breytt í upprunalegt horf til samanburðar.

Í kirkjunni eru steinkistur tveggja Ítalíukonunga og nokkurra listamanna, þar á meðal Rafaels.

Við götuna Via della Rosetta, á nr. 8-9, er veitingahúsið Rosetta.

Næstu skref