Grand Central Terminal
Örlitlu lengra eftir götunni, einnig vinstra megin hennar, komum við að framhlið Grand Central Terminal, aðaljárnbrautarstöðvar borgarinnar. Þetta feiknarflykki frá árunum 1903-1913 rúmar brautarteina, vegi og göngupalla á mörgum hæðum. Hálf milljón manna fer um stöðina á hverjum virkum degi.
Framhliðin er í Beaux Art stíl og ber um fjögurra metra breiða klukku. Inni er mikið, 10 hæða anddyri, þar sem 38 metrar eru upp í hvelfingu, lengra en í Notre Dame í París. Hvelfingin er skreytt stjörnumerkjum.
Niðri í kjallara er Oyster Bar, eitt allra skemmtilegasta veitingahús borgarinnar.
Pan Am Building
Við förum úr járnbrautarstöðinni til norðurs gegnum Pan Am Building, sem ekki er lengur eign samnefnds flugfélags. Efst í skýjakljúfnum er bar, og þaðan gott útsýni suður til niðurbæjarins og austur til aðalstöðva Sameinuðu þjóðanna.
Þegar við förum úr Pan Am Building að norðanverðu og göngum út á Park Avenue, lítum við til baka. Við sjáum hvernig sveigður skýjakljúfurinn situr klofvega á brautinni. Hann var hannaður 1963 af hinum frægu arkitektum Walter Gropius, Pietro Belluschi og Emery Roth, þótti lengi fremur ljótur, en hefur nú öðlazt virðulegri sess í sögu byggingarlistar.
Park Avenue
Við göngum norður eftir Park Avenue, einu langbraut Manhattans, sem hefur gróðureyju í miðjunni endilangri, og tökum eftir, hvernig komið hefur verið fyrir risastórum glerhýsum og innigörðum á neðstu hæðum skýjaklúfanna austan megin götunnar.