12. Istanbul – Sublime Porte

Borgarrölt

IMG_0143

Sublime Porte

Á leiðinni niður brekkuna frá inngangi fornminjasafnsis komum við að hliði Sublime Porte, stjórnarráðs Tyrklands á tíma soldánanna. Þar réð ríkjum Grand Vizier, það er stórvesír, sem var eins konar forsætisráðherra soldáns.

Ráðuneytið var jafnan kennt við virðulegt aðalhliðið við götuna, sem enn stendur. Þar fóru erlendir sendiherrar um til að afhenda skilríki sín. Á tungumáli diplómata var tyrkneska ríkið oftast kallað Sublime Porte eftir hliðinu.

Egypzki bazarinn

Kryddmarkaður borgarinnar, Mısır Çarşısı, er niðri við Galata-brúna yfir Gullna hornið, einn stærsti markaður borgarinnar, glæsileg og yfirbyggð húsakynni frá 1660.

Þar er einkum verzlað með krydd, en passið ykkur á kaupum á saffran. Dýrast er stimplað saffran frá Persíu, en það er hið eina ekta saffran á markaðinum. Þarna er líka selt tyrkneskt sælgæti, hnetur og þurrkaðir ávextir.

Austurlandahraðlestin

Austan við enda Galata-brúar er líka járnbrautarstöðin Sirkecsi, sem var endastöð hinnar glæsilegu Austurlandahraðlestar frá París, sem löngum var vettvangur reyfara og kvikmynda. Þar á meðal bóka eftir Agatha Christie og Graham Greene. Ferðir lestarinnar hófust 1889 og liðu undir lok 1977.

Næstu skref